Erlent

Sakar lög­reglu um að hafa skipu­lagt hand­tökurnar fyrir­fram

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Meðal mótmælenda voru umhverfissinnar sem voru að mótmæla olíuframleiðslu.
Meðal mótmælenda voru umhverfissinnar sem voru að mótmæla olíuframleiðslu. Ian McIlgorm

Graham Smith, leiðtogi lýðveldissamtakanna Republic, sakar lögregluyfirvöld í Lundúnum um að hafa skipulagt það fyrirfram að handtaka mótmælendur við krýningu Karls III Bretakonungs, til að trufla og gera lítið úr mótmælum lýðveldissinna á krýningardaginn.

Fleiri en 60 manns voru handteknir á laugardag og Smith segir aðgerðir lögreglu hafa verið hreint og beint brot á réttindum fólks til að mótmæla. Það þrátt fyrir að samtökin hefðu átt í samtali við Lundúnarlögregluna í marga mánuði.

Sadiq Khan, borgartjóri Lundúna, og fleiri stjórnmálamenn hafa kallað eftir útskýringum af hálfu lögreglunnar á handtökum lýðveldissinna og sjálfboðaliða sem voru að gæta öryggis í fjölmenninu.

Smith sagði við Radio 4 að forsvarsmenn Republic hefðu fyrir löngu upplýst lögreglu um hvað stæði til, hversu mörg mótmælaspjöld yrðu notuð og hvað myndi standa á þeim. Þá myndu þeir nota „magnara“ til að vekja athygli.

Þegar á hólminn var komið var mótmælendum hins vegar hótað handtöku ef þeir notuðu gjallarhorn.

Smith segist ekki í vafa um að það hafi verið búið að taka ákvörðun um að handtaka hann sjálfan. Hvorki hann né aðrir hefðu gert neitt til að réttlæta handtökur og gæsluvarðahald.

Meðal hinna 64 handteknu voru meðlimir öryggissveitar borgarráðs Westminster, sem afhentu nauðgunarvarnaflautur og annan öryggisbúnað. Lögregla bar því við að hafa upplýsingar um að nota ætti flauturnar til að trufla krýningarathöfnina.

Caroline Russell, formaður löggæslunefndar borgarráðs Lundúnarborgar, segir framgöngu lögreglu verulegt áhyggjuefni. Það sé hreint ótrúlegt að fólk hafi verið handtekið sem var að dreifa nauðgunarvarnaflautur og sandala til ölvaðra hátíðargesta.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×