Lengi hefur staðið til að handtaka Khan sem er grunaður um spillingu. Hann var handtekinn þegar hann mætti í dómsal í Islamabad í gær.
Khan, sem tók við embætti forsætisráðherra árið 2018, var komið frá völdum í apríl í fyrra með vantrauststillögu sem samþykkt var á þingi. Hann var í kjölfarið ákærður fyrir spillingu og önnur brot. Khan særðist í skotárás í nóvember þegar maður hóf skothríð á mótmælum í Wazirabad.
Meðal þess sem hann er sakaður um er að hafa selt gjafir sem hann fékk í embætti og þar að auki er hann sakaður um að hafa reynt að leyna eigum sínum.
Khan heldur því fram að hann sé fórnarlamb pólitískra ofsókna. Dorrit stendur með Khan sem var á sínum tíma einn besti krikketspilari í heimi áður en hann sneri sér að stjórnmálum.
„Ég er miður mín að heyra af handtöku Imrans. Ég hef þekkt hann í yfir hálfa öld. Hann er ekki SPILLTUR!“ segir Dorrit í færslu á Instagram.
Hún deilir gamalli mynd úr safni af þeim Khan á góðri stundu með drykk í hönd.
Til blóðugra átaka og fjöldamótmæla hefur komið víða í Pakistan í kjölfar þess að forsætisráðherrann fyrrverandi Imran Khan var handtekinn í gær.
Stuðningsmenn Khans hafa barist við lögreglumenn og vitað er um eitt dauðsfall hið minnsta, í borginni Quetta. Bandarísk og bresk stjórnvöld hafa hvatt deiluaðila til að fara að lögum en Khan segir að handtaka sín sé af póltískum rótum.