Erlent

Í haldi lög­­reglu í þrettán tíma fyrir mis­skilning

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Alice fékk aldrei að bera konunginn og drottninguna augum síðastliðinn laugardag. Þess í stað þurfti hún að dúsa á lögreglustöð.
Alice fékk aldrei að bera konunginn og drottninguna augum síðastliðinn laugardag. Þess í stað þurfti hún að dúsa á lögreglustöð. Samir Hussein/WireImage/Getty

Ofuraðdáandi bresku konungsfjölskyldunnar var handtekinn af lögreglunni síðastliðinn laugardag þegar nýr konungur var krýndur og þurfti að dúsa í haldi lögreglunnar í London í þrettán tíma.

Í frétt Sky sjónvarpsstöðvarinnar kemur fram að um sé að ræða hina 36 ára gömlu Alice Chambers. Hún er 36 ára arkitekt frá Ástralíu og beið ásamt öðrum vegfarendum eftir því að geta barið nýjan konung augum á leið hans til krýningarinnar.

Hún segist hafa setið á jörðinni ásamt hópi af öðru fólki þegar hún hafi skyndilega tekið eftir mikilli hreyfingu á hópi af fólki í kringum sig. Þar hafi verið á ferðinni mótmælendahópur gegn olíuvinnslu og gerðust hlutirnir hratt.

Hafi engu skeytt um útskýringar

„Áður en ég gat staðið upp voru tveir lögreglumenn mættir og gripu mig, áður en þeir drifu mig í burtu í handjárnum,“ hefur sjónvarpsstöðin eftir Alice. Hún segir lögreglumennina engu hafa skeytt um það þegar hún hafi útskýrt að hún væri einfaldlega saklaus vegfarandi.

Alice þurfti þrátt fyrir þetta að eyða restinni af krýningardeginum á lögreglustöð. Hún segir að hún hafi síðar ekki fengið að ræða við lögreglumenn fyrr en um kvöldmatarleytið, sem hafi verið fljótir að gera sér grein fyrir því að um mistök hafi verið að ræða og því sleppt henni.

Talsmaður bresku lögreglunnar segir í samtali við Sky sjónvarpsstöðina að lögreglan geri sér grein fyrir því að um mistök hafi verið að ræða. Gríðarlegur mannskapur hafi safnast fyrir í borginni þennan dag. Málið verði rannsakað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×