Íslenski boltinn

Vör Söndru rifnaði við höggið: „Eins rautt spjald og það verður“

Sindri Sverrisson skrifar
Sandra María Jessen mætti í viðtal eftir að vörin rifnaði, en hún skoraði sigurmark Þórs/KA gegn ÍBV á sunnudaginn skömmu áður en hún fékk olnbogaskot í andlitið.
Sandra María Jessen mætti í viðtal eftir að vörin rifnaði, en hún skoraði sigurmark Þórs/KA gegn ÍBV á sunnudaginn skömmu áður en hún fékk olnbogaskot í andlitið. Stöð 2 Sport

Sauma þurfti nokkur spor í vör Söndru Maríu Jessen eftir höggið sem hún fékk frá Holly O‘Neill í leik Þórs/KA við ÍBV í Vestmannaeyjum á sunnudag, í Bestu deildinni í fótbolta. Málið var skoðað í Bestu mörkunum á Stöð 2 Sport í gærkvöld.

Sandra hafði þegar skorað eina mark leiksins þegar hún fékk olnbogaskotið frá O‘Neill. Guðmundur Páll Friðbertsson, dómari leiksins, lyfti fyrst gula spjaldinu en eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðardómara rak hann O‘Neill af velli.

Þjálfari Eyjakvenna, Todor Hristov, var hreinskilinn varðandi hegðun síns leikmanns:

„Ég verð að vera hreinskilinn með að þetta var rautt spjald. Þetta er óafsakanlegt,“ sagði Hristov en atvikið og umræðuna í Bestu mörkunum má sjá hér að neðan.

Klippa: Bestu mörkin - Höggið sem Sandra fékk í andlitið

„Þetta er eins rautt spjald og það verður,“ sagði Mist Edvardsdóttir afdráttarlaust í Bestu mörkunum. Og hún var ánægð með að sjá dómarann skipta um skoðun:

„Hann hefur haldið fyrst að þetta væri óvart en sem betur fer, að því er virðist, sá aðstoðardómarinn þetta. Ég ætla bara að hrósa Guðmundi fyrir að breyta þessu, taka gula spjaldið til baka,“ sagði Mist.

„Ég held að ekkert annað hafi verið hægt. Og eftir þetta atvik fjaraði leikurinn út fyrir ÍBV,“ sagði Helena Ólafsdóttir en umræðuna og hluta af viðtali við Söndru og Hristov má sjá hér að ofan.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×