Íslenski boltinn

Kjartan harmar sparkið en segir oln­boga­skotið ó­vilja­verk

Sindri Sverrisson skrifar
Mikil umræða hefur verið um framgöngu Kjartans Henrys Finnbogasonar í Víkinni í gærkvöld og hann hefur nú sent frá sér yfirlýsingu.
Mikil umræða hefur verið um framgöngu Kjartans Henrys Finnbogasonar í Víkinni í gærkvöld og hann hefur nú sent frá sér yfirlýsingu. FH

Kjartan Henry Finnbogason hefur sent frá sér skilaboð í kjölfar þess að hafa víða verið sakaður um fautaskap í leik með FH gegn Víkingi í Bestu deildinni í fótbolta í gærkvöld.

Kjartan var til að mynda í Stúkunni á Stöð 2 Sport talinn heppinn að hafa ekki fengið rauða spjaldið í leiknum, í tvígang, en hann kláraði leikinn sem endaði með 2-0 sigri Víkings. Kjartan fékk þó gult spjald undir lok leiks þegar hann mótmælti rauðu spjaldi á liðsfélaga sinn, Finn Orra Margeirsson.

Fyrra atvikið sem um ræðir var þegar Kjartan sparkaði í átt til Birnis Snæs Ingasonar, án þess þó að hæfa hann, en þar munaði litlu að illa færi eins og Kjartan viðurkennir sjálfur. Í seinna atvikinu endaði Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkinga, alblóðugur í framan eftir olnbogaskot frá Kjartani en þar segir Kjartan um algjört óviljaverk að ræða.

„Eftir að hafa séð þessi leiðinlegu atvik aftur að þá sé ég mikið eftir „pirrings“ sparki í átt að Birni. Hefði getað endað illa, gerði það ekki en á aldrei að eiga sér stað,“ skrifar Kjartan á Twitter í dag.

„En það að ég hafi viljandi gefið Nico olnbogaskot er svo fjarri lagi, þetta var algjört óviljaverk, ég var að dekka einn sterkasta framherja deildarinnar og reyna að passa að hann kæmist ekki fram fyrir mig. Sem betur fer slapp hann með blóðnasir. Annað eins hefur gerst á fótboltavelli. Óska Víkingum nær og fjær til hamingju með sigurinn,“ skrifar Kjartan.

Atvikin og umræðuna í Stúkunni má sjá hér að neðan.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×