Erlent

Þrír látnir í enn einni skotárásinni

Árni Sæberg skrifar
Framhaldsskólinn í Farmington var settur á tímabundið neyðarástand vegna skotárásarinnar en því hefur verið aflétt.
Framhaldsskólinn í Farmington var settur á tímabundið neyðarástand vegna skotárásarinnar en því hefur verið aflétt. Lögreglan í Farmington

Þrír eru látnir og þónokkrir særðir, þar á meðal tveir laganna verðir, eftir skotárás í Nýju-Mexikó í Bandaríkjunum í dag. Það sem af er ári hafa 224 fjöldaskotárásir verið framdar í Bandaríkjunum.

Lögreglan í Farmington í Nýju-Mexíkó, lítilli borg við landssvæði Navajo frumbyggjaþjóðarinnar í ríkinu, greindi frá skotárásinni á Facebooksíðu sinni í kvöld.

Þar segir að þrír almennir borgarar séu látnir og þónokkrir særðir. Meðal særðra séu lögregluþjónn lögreglunnar í Farmington og lögregluþjónn ríkislögreglu Nýju-Mexíkó.

Þá segir að fjöldi lögreglumanna hafi brugðist við útkalli og að einn hafi verið felldur í skotbardaga, grunaður um ódæðið. Borginni hafi verið lokað að hluta á meðan lögregla leitaði af sér grun um að hann gæti hafa átt sér vitorðsmann en öllum afléttingum hafi nú verið aflétt.

Í frétt AP um árásina er vísað í yfirlýsingu Michelle Lujan Grisham, ríkisstjóra Nýju-Mexíkó. Hún segist biðja fyrir fjölskyldum fórnarlambanna og segir að árásin í dag sé áminning um það hvernig byssuofbeldi eyðileggi líf fólks í ríkinu og Bandaríkjunum öllum á hverjum einasta degi.

The Gun Violence Archive, samtök sem halda utan um tölfræði um byssuofbeldi í Bandaríkjunum, birtu nýja samantekt yfir fjölda fjöldaskotárása á árinu á Twitter í kjölfar árásarinnar.

Þar kemur fram að það sem af er maí hafi nú 37 slíkar verið framdar og 224 það sem af er ári. Á sama tíma í fyrra hafi 198 verið framdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×