Báðir hafa þeir því fengið hámark gulra spjalda og þurfa því að taka út leikbann.
Þetta þýðir að Sævar Atli, sem hefur verið í lykilhlutverki hjá Lyngby, verður í leikbanni þegar að Íslendingaliðið sem spilar undir stjórn Freys Alexanderssonar og háir nú harða fallbaráttu mætir OB um komandi helgi.
Forráðamenn Lyngby töldu sig hafa sterk rök á bak við sig þegar að þeir ákváðu að áfrýja gula spjaldinu sem Sævar Atli fékk í leiknum gegn Silkeborg.
Að mati Lyngby var um klára snertingu að ræða mill Sævars og Tobias Salqvist, leikmanns Silkeborg, þegar að Íslendingurinn féll til jarðar og fékk gult spjald fyrir leikaraskap.
Þessu er danska knattspyrnusambandið ekki sammála og stendur dómari leiksins fastur á þeirri skoðun sinni að háttsemi Sævars Atla hafi verðskuldað gult spjald.
Og það er ekki nóg með að áfrýjun Lyngby hafi verið hafnað heldur mun félagið einnig þurfa að greiða 25 þúsund danskar krónur, því sem jafngildir rúmum 500 þúsund íslenskum krónum, þar sem það hefur ekki aðild að agadómstóli danska knattspyrnusambandsins.
Þegar að þrjár umferðir eru eftir af dönsku úrvalsdeildinni situr Lyngby í neðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 24 stig, þremur stigum frá öruggu sæti.
Þá eru tveir af þeim þremur leikjum sem liðið á eftir gegn liðunum sem eru einnig í fallbaráttunni, Álaborg og Horsens.
Sömu sögu að segja með Hákon Arnar
Að sama skapi verður gula spjaldið, sem Hákon Arnar fékk fyrir háttsemi sína á varamannabekk FC Kaupmannahafnar gegn Bröndby á dögunum, ekki dregið til baka.
Hákon Arnar er sagður hafa hlaupið um 25 metra frá varamannabekk FC Kaupmannahafnar í leiknum til þess að hafa áhrif á gang mála.
Sem betur fer fyrir Hákon Arnar varð gula spjaldið hans gegn Bröndy ekki til þess að hann tók út leikbannið í úrslitaleik gærdagsins þegar að FC Kaupmannahöfn varð danskur bikarmeistari með sigri á AaB.
Hákon Arnar verður hins vegar í banni þegar að FC Kaupmannahöfn mætir AGF á Parken á sunnudaginn. Þá mun FC Kaupmannahöfn, líkt og Lyngby, þurfa að greiða því sem nemur rúmri hálfri milljón íslenskra króna.