Íslenski boltinn

Karl Frið­leifur hafi verð­skuldað „eld­rautt spjald“

Aron Guðmundsson og Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifa
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur Vísir/Hulda Margrét

Arnari Gunn­laugs­syni, þjálfara Víkings Reykja­víkur, var létt eftir 2-1 sigur liðsins gegn HK á úti­velli í Bestu deildinni í kvöld. HK-ingar herjuðu á Víkinga undir lok leiks en þeir léku síðasta stundar­fjórðunginn einum manni færri eftir verð­skuldað rautt spjald Karls Frið­leifs að mati Arnars.

„Þetta er léttir og ég er því­líkt á­nægður með sigurinn því þetta er erfiður úti­völlur, sagði Arnar í við­tali við Kristínu Björk Ingi­mars­dóttur á Stöð 2 Sport eftir leik. Mér fannst fyrri hálf­leikurinn nánast full­kominn af okkar hálfu. Við höfðum full­komna stjórn á öllum að­stæðum en til að láta mér líða betur í hálf­leik hefði ég alveg verið til í að vera tveimur til þremur mörkum yfir.“

Arnar segist hafa látið sína menn vita af því í hálf­leik að leikar myndu æsast.

„HK hafði í raun og veru engu að tapa. Þeir fóru að dæla fram lengri boltum, urðu agressí­fari og voru að vinna seinni bolta. Mér fannst við hins vegar verjast á­gæt­lega en svo varð þetta bara að nauð­vörn hjá okkur eftir að Karl Frið­leifur var rekinn af velli.“

Á 78.mínútu fékk Karl Frið­leifur Gunnars­son að líta beint rautt spjald eftir brot á Ey­þóri Wöhler. Karl kom fór allt of seint í tæk­linguna og telur Arnar að um réttan dóm hafi verið að ræða.

„Mér fannst þetta bara eld­rautt spjald. Hann var seinn í tæk­linguna en mögu­lega, til að verja mína menn, fannst mér eins og að ein­hverjum sekúndum áður hafi verið brotið á Erlingi. Það var ýtt í bakið á honum en dómarinn lét leikinn ganga. Mögu­lega var Karl Frið­leifur kannski eitt­hvað pirraður yfir því en mér fannst þetta vera klárt rautt spjald.“

Víkingar eru með fullt hús stiga eftir fyrstu átta leiki tíma­bilsins. Er þetta eitt­hvað sem lagt var upp með fyrir tíma­bilið?

„Auð­vitað viltu vinna alla leiki sem þú ferð í en ég væri kannski að ljúga því ef ég myndi segja núna að ég hefði haft trú á því að við myndum vinna alla átta fyrstu leiki okkar því þetta er gríðar­lega sterkt mót með mörgum mis­munandi á­skorunum. Ekki bara hvað varðar gæði liðanna heldur einnig á þeim úti­völlum sem við höfum spilað á. Við fórum til Eyja og spiluðum við erfiðar að­stæður, þá er líka alltaf mjög erfitt að koma hingað inn í Kórinn.

Nú tekur við annað krefjandi tíma­bil með þremur afar erfiðum leikjum gegn KA úti, Val heima og Breiða­blik úti. Þetta er al­gjör veisla og við þurfum bara að halda fókus. Taka einn leik í einu og ekkert vera að horfa á hvað önnur lið eru að gera. Við erum bara í góðum málum eins og staðan er í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×