Íslenski boltinn

FH-ingar gagn­rýna vinnu­brögð Klöru og KSÍ: „Al­­gjör­­lega ó­­tækt“

Aron Guðmundsson skrifar
Klara Bjartmarz og Kjartan Henry Finnbogason
Klara Bjartmarz og Kjartan Henry Finnbogason Vísir/Samsett mynd

Knatt­spyrnu­deild FH gagn­rýnir harð­lega vinnu­brögð Klöru Bjart­marz, fram­kvæmda­stjóra Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands, í máli Kjartans Henry Finn­boga­sonar leik­manns fé­lagsins.

Knatt­spyrnu­deild FH hefur sent frá sér yfir­lýsingu í kjöl­far úr­skurðar Aga- og úr­skurðar­nefndar KSÍ þess efnis að dæma leik­mann FH, Kjartan Henry Finn­boga­son í eins leiks bann fyrir „al­var­lega grófan og hættu­legan leik“ í leik FH og Víkings Reykja­víkur á dögunum.

Dómarar um­rædds leiks sáu ekki at­vikið milli Kjartans Henrys og Nicola­j Han­sen, sóknar­manns Víkings Reykja­víkur en Klara Bjart­marz, fram­kvæmdar­stjóri KSÍ sendi erindi til Aga- og úr­skurðar­nefndar sam­bandsins sem varðaði at­vikið en á mynd­bands­upp­töku sést Kjartan Henry gefa Nikola­j Han­sen oln­boga­skot.

Með þessu nýtti Klara Bjart­marz sér á­kvæði í lögum KSÍ sem heimilar fram­kvæmdar­stjóra KSÍ að skjóta málum til Aga- og úr­skurðar­nefndar.

„Um það verður ekki deilt að þessi heimild er til staðar,“ segir í yfir­lýsingu knatt­spyrnu­deildar FH um málið. „Hins vegar er fram­ganga fram­kvæmdar­stjórans í greinar­gerð sinni til Aga- og úr­skurðar­nefndar á­mælis­verð.“

Hún getur ekki sest í dómara­sæti

FH-ingar segja Klöru þar full­yrða það tví­vegis í greinar­gerð sinni að Kjartan Henry hafi sýnt af sér ó­í­þróttar­manns­legan og hættu­legan leik.

„Það er að mati FH al­gjör­lega ó­tækt og í ó­sam­ræmi við mál­skots­heimild fram­kvæmdar­stjórans að hún taki af­stöðu í málinu með svona af­gerandi hætti. Fram­kvæmdar­stjórinn hefur vissu­lega heimild til að vísa málinu til nefndarinnar en hún getur ekki sest í dómara­sæti eða tekið að sér mál­flutning fyrir aðra hlið málsins líkt og hún gerir í greinar­gerð sinni.“

Í úr­skurði Aga- og úr­skurðar­nefndar kemur fram að nefndin tekur undir þau sjónar­mið FH að „ó­kleift sé að full­yrða að leik­maður FH hafi af á­setningi gerst brot­legur gagn­vart leik­manni Víkings R.“

„Með öðrum orðum, þá telur nefndin ó­mögu­legt að dæma um hvort að um vilja­verk hafi verið að ræða í um­ræddu til­viki af hálfu Kjartans. Í huga FH, og lík­lega flestra annarra, þá ættu ó­vilja­verk leik­manna varla að geta flokkast undir ó­í­þrótta­manns­lega hegðun eða gróf og al­var­leg brot sem beri að refsa sér­stak­lega fyrir­með leik­banni á síðari stigum.“

Niður­staða nefndarinnar hafi hins vegar verið sú að þrátt fyrir að ekki teldist stað­fest að brotið hafi verið framið af á­setningi, þá teldist það engu að síður vera „al­var­legt aga­brot“ og að Kjartan hafi sýnt af sér „al­var­lega grófan og hættu­legan leik.“

„Að mati FH heldur slíkur rök­stuðningur eða mál­flutningur ekki vatni og býður aug­ljós­lega upp á að það verði nóg að gera hjá fram­kvæmdar­stjóra KSÍ og Aga- og úr­skurðar­nefndinni í sumar að dæma leik­menn í leik­bönn fyrir mögu­leg ó­vilja­verk,“ segir í yfir­lýsingu knatt­spyrnu­deildar FH um málið.

KSÍ þurfi að íhuga alvarlega stefnu sína

FH telur ljóst að megin ástæðu þess að nefndin hafi komist að þessari niðurstöðu megi rekja til máflutnings og fullyrðinga Klöru í greinargerð hennar til nefndarinnar. 

Mikil og „einhliða“ fjölmiðlaumfjöllun um atvikið og Kjartan Henry hafi þá einnig haft áhrif á bæði greinargerð Klöru sem og niðurstöðu Aga- og úrskurðarnefndar.

„Sé það rétt ályktað er það grafalvarlegt mál,“segir í yfirlýsingu FH-inga. Þeir meta það sem svo að ef litið yrði hlutlægt á umrætt atvik, óháð fjölmiðlaumfjöllun, persónum og leikendum teljist brotið ekki verðskulda rautt spjald, „hvað þá leikbann á síðari stigum.“

Kjartan Henry leikur með FH FH

FH-ingar segja KSÍ þurfa að íhuga alvarlega stefnu sína í þessum málaflokki. 

„KSÍ þarf að hætta að velta sér upp úr því hver umræðan er á samfélagsmiðlum og þora að taka ákvarðanir byggðar á staðreyndum og sýna festu í þessum málum líkt og öðrum.“

Búast megi við því að nóg verði að gera hjá Klöru Bjartmarz í starfi framkvæmdastjóra KSÍ í sumar.

„Og vonum við að hún beri gæfu til að taka á þessum málum af meiri fagmennsku en hún hefur gert í þeim tveimur málum sem hafa snert Fimleikafélagið á þessu tímabili.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×