Lífið

Gísli Marteinn segir fólk hafa fullan rétt á að hrauna yfir sig

Máni Snær Þorláksson skrifar
Gísli Marteinn segir að hann myndi fara í taugarnar á sjálfum sér ef hann væri ekki hann sjálfur.
Gísli Marteinn segir að hann myndi fara í taugarnar á sjálfum sér ef hann væri ekki hann sjálfur. Stöð 2

Fannar Sveinsson ræðir við sjónvarpsmanninn Gísla Martein Baldursson í nýjasta þætti Framkomu sem sýndur var á Stöð 2 í gærkvöldi. Meðal annars er Gísla spurður út í þá gagnrýni sem hann fær á netinu og hvort hann taki hana inn á sig.

Gísli Marteinn stýrir sjónvarpsþættinum Vikunni á föstudagskvöldum á RÚV og hefur í gegnum tíðina verið gagnrýndur af netverjum vegna þeirra. „Þegar einhver gagnrýnir hvað þú ert að gera eða finnst Vikan leiðinleg, tekurðu það til þín?“ spyr Fannar hann meðal annars í þætti gærkvöldsins.

„Er einhver að segja það?“ spyr Gísli Marteinn og hlær. „Ég var að djóka. Það er svo margt fólk sem hatar Vikuna svo mikið og mig að ég bara er alveg steinhissa.“

Gísli segir þó að hann haldi að ekki sé um að ræða djúpt hatur. „Ég meina, fólk heldur til dæmis að Akureyringar hati mig rosalega mikið út af skoðunum mínum á flugvellinum.“

Það endurspeglist þó ekki í heimsóknum hans norður. „Svo fer ég til Akureyrar, það er ekki til betra fólk.“

Færi í taugarnar á sjálfum sér

Sjálfum finnst Gísla í fínu lagi að fólki finnist þetta og hitt um hann. „Mér finnst allt þetta fólk hafa bara fullan rétt á að hafa þessar skoðanir á mér og hrauna yfir mig,“ segir hann. 

„Ég er með risastórt platform, risastóra rödd þar sem ég get verið að gasa um það sem mér sýnist. Þau hafa það ekki og þá mega þau bara nota þetta litla platform til þess. Mér finnst það bara allt í lagi. Ég hef líka alveg lært alveg helling af einhverju fólki sem hefur gagnrýnt mig.

Það hefur sagt eitthvað og ég hugsa: Já, heyrðu þetta er nú bara góður punktur.“

Gísli segist þá ekki dvelja í gagnrýninni sem hann fær. „Alls ekki og fyrir utan það, oft er ég bara sammála einhverri gagnrýni,“ segir hann.

„Ég til dæmis tala ógeðslega hátt og er með gjallandi rödd. Ég hef oft horft á sjálfan mig í sjónvarpinu og verið bara: Oh jesus christ hvað þessi gæji færi í taugarnar á mér ef ég væri ekki hann.“

Gísli og Fannar hlæja þá saman og sá síðarnefndi segir að lokum: „Gísli Marteinn færi í taugarnar á þér ef þú værir ekki Gísli Marteinn.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.