Skoðun

Svan­dís í hvalnum

Sigurjón Þórðarson skrifar

Skýrsla MAST um hvalveiðar segir berum orðum að veiðarnar samræmast ekki markmiðum um dýravelferð, enda þarf að skutla fjórðung dýra oftar en einu sinni og fjórðung þeirra þrisvar eða fjórum sinnum!

Maður myndi ætla að ekki þyrfti frekari rök fyrir ráðamenn til að grípa inn í veiðarnar og gildir þá einu hvort menn séu almennt fylgjandi eða mótfallnir hvalveiðum. Matvælaráðherra er að vísu ekki þeirrar skoðunar, að minnsta kosti ef marka má framgöngu hennar á opnum fundi Atvinnuveganefndar Alþingis. Í máli hennar kom fram að hún hyggst afla frekari gagna og mun láta þann feril sem málið er í ganga til enda. Mikil pólitík þar.

Ráðherra hefur ekki lagt fram neitt mál fyrir þingið sem snýr að því að auðvelda inngrip ráðherra í veiðarnar eða boðað útgáfu á reglugerð með það að markmiði að treysta umgjörð veiðanna. Á sama tíma hefur hún lagt fram nokkur frumvörp sem snúa að því að þrengja að strandveiðum og stöðva vistvænar veiðar ef veitt er fram úr naumt skömmtuðum potti ráðherra.

Flótti Svandísar Svavarsdóttur frá bæði stefnuskrá VG og dýraverndarsjónarmiðum, virðist ganga út á að flækja málið og gripið er til undarlegra ráða t.d. með galinni umræðu um að rannsaka eigir frekar jákvæð loftslagsáhrif hvala. Hvaða líffræðingur sem er sér það í hendi sér að dýr sem anda frá sér koltvísýringi er ekki að fara að binda kolefni, enda aðeins lítill hluti af kolefni úr fæðu hvala sem nýtist til vaxtar.

Málið er einfalt. Málið snýst um dýravelferð og því ætti matvælaráðherra að nýta þær heimildir sem hún hefur samkvæmt lögum um hvalveiðar til þess að a.m.k. bæta umgjörð veiðanna t.d. hvað varðar veður og sjólag þegar veiðar fara fram og þjálfun sjómanna, auk fleiri þátta sem tryggja lágmarks viðmið um dýravelferð.

Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins.




Skoðun

Sjá meira


×