Ítalski miðillinn Sempre Milan greinir frá því að forráðamenn AC Milan hafi augastað á Alberti sem hefur slegið í gegn frá komu sinni til Genoa árið 2022.
Albert er markahæsti leikmaður Genoa, sem tryggði sér sæti í ítölsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili, á yfirstandandi tímabili með fjórtán mörk. Þá hefur hann gefið fimm stoðsendingar.
Forráðamenn AC Milan telja liðið þurfa að styrkja sig á köntunum fyrir næsta tímabil og fylgist félagið grannt með stöðu mála hjá Alberti sem kom til Genóa frá AZ Alkmaar fyrir rúma eina milljón evra á sínum tíma.
Nú er talið að AC Milan þurfi að reiða fram allt að tíu milljónum evra ætli félagið sér að ganga frá kaupum á Íslendingnum knáa.
AC Milan komst alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu á yfirstandandi tímabili en þar laut liðið í lægra haldi gegn nágrönnum sínum í Inter Milan.
Þá er liðið sem stendur í fjórða sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með 64 stig þegar að tvær umferðir eru eftir af tímabilinu.
Fetar hann í fótspor langafa?
Albert Guðmundsson, langafi og alnafni Alberts, lék með AC Milan í efstu deild Ítalíu tímabilið 1948-49 og það tímabil skoraði hann tvö mörk í 14 leikjum.
Það er því spurning hvort að Albert muni feta í fótspor langafa síns og spila með AC Milan í framtíðinni.