Íslenski boltinn

Frederik, Ingvar og Arnar Freyr bjargað flestum mörkum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frederik Schram, Ingvar Jónsson og Arnar Freyr Ólafsson hafa staðið sig í stykkinu í sumar.
Frederik Schram, Ingvar Jónsson og Arnar Freyr Ólafsson hafa staðið sig í stykkinu í sumar. vísir/diego/hulda margrét

Þrír markverðir eru í sérflokki þegar kemur að því að bjarga sínum liðum í Bestu deild karla í fótbolta.

Þetta eru þeir Frederik Schram (Val), Ingvar Jónsson (Víkingi) og Arnar Freyr Ólafsson (HK). Þeir eru einu markverðir Bestu deildarinnar sem eru í plús þegar litið er tölfræðina að koma í veg fyrir mörk.

Frederik hefur komið í veg fyrir flest mörk, eða tæp fjögur (3,97). Ingvar kemur þar á eftir en hann hefur bjargað 3,08 mörkum. Hann hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í fyrstu átta umferðum Bestu deildarinnar.

Arnar Freyr er svo í 3. sæti á listanum en hann hefur bjargað 3,04 mörkum. Hann hefur einnig varið flest skot allra markvarða í deildinni, eða 37. Þar á eftir kemur Mathias Rosenørn, markvörður Keflavíkur, með 36 varin skot.

Þegar litið er á hinn enda björgunartöflunar er ljóst að markverðir Fram og Fylkis eiga nóg inni, allavega vonandi fyrir lið þeirra. Ólafur Íshólm Ólafsson, markvörður Fram, ætti að vera búinn að bjarga tæplega fjórum mörkum (3,97) og nafni hans í Fylkismarkinu, Ólafur Kristófer Helgason, 3,3 mörkum. Sá síðarnefndi hefur fengið á sig flest mörk í Bestu deildinni, eða átján.

Steinþór Már Auðunsson, markvörður KA, ætti að vera búinn að koma í veg fyrir 1,97 mörk. Hann hefur fengið á sig flest mörk fyrir utan vítateig í deildinni, eða fimm. Þar á eftir kemur Simen Kjellevold, markvörður KR, en hann hefur fengið á sig fjögur mörk fyrir utan teig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×