„Það er náttúrlega magnað að verða vitni að þessu viðvarandi stéttastríði Seðlabankans gagnvart láglaunafólki. Tilveruskilyrði láglaunafólks voru erfið, nú enn erfiðari,“ segir Sólveig Anna.
Gögn sýni að 60 prósent eflingarfólks eigi erfitt með að láta enda ná saman. Ríflega helmingur eflingarkvenna lifi við skert kjör og 30 prósent þeirra geti ekki séð börnum sínum fyrir nauðsynlegum fatnaði.
„Hér teiknast auðvitað upp mynd af algerlega óboðlegum aðstæðum. Það er ömurlegt að hugsa til þess að í stað þess að stjórnvöld geri það sem þau geta sannarlega gert, sem væri aðgerð til að draga úr neyslu hinna auðugu sem náttúrlega knýja verðbólgubálið áfram; lagt á skatta. Hækkað skatta á auðstéttina. Þá er þessi leið farin sem gerir einmitt ekkert til að draga úr neyslu hinna auðugu en rústar lífi lágtekjufólks,“ segir formaður Eflingar.

Í kringum áramótin síðustu voru gerðir skammtíma kjarasamningar vegna óvissunnar í efnahagsmálum sem hefur síst minnkað. Seðlabankinn segir hóflega langtímasamninga hins vegar forsendu þess að hægt sé að gera áætlanir til að ná verðbólgunni niður.
„Okkur hugnast vel að gera langtíma samninga en þá með sterkum forsendu ákvæðum," segir Sólveig.
„Það er náttúrlega augljóst að það þarf eitthvað mjög mikið að koma til hjá stjórnvöldum í næstu kjarasamningslotu. Húsnæðismarkaðurinn getur ekki lengur fengið að vera einhvern veginn leikfang hinna auðugu á kostnað hinna eignalausu. Ástæðan fyrir því að lífkjör eflingarfélaga eru orðin svona slæm er auðvitað fyrst og síðast húsnæðismarkaðurinn,“ segir Formaður Eflingar.
Fólk sé einfaldlega að bugast undan húsaleigunni og verðbólgunni. Lítil fjárhagsleg áföll væru þeim um megn.
„Ef við skoðum bara stöðuna þá var það svo árið 2009 að 63 prósent eflingarfélaga voru í sínu eigin húsnæði. Nú eru aðeins 38 prósent eflingarfélaga í sínu eigin húsnæði,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir.