Fótbolti

Stýrði Napoli til lang­þráðs sigur en hættir samt í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luciano Spalletti segist þurfa á fríi að halda.
Luciano Spalletti segist þurfa á fríi að halda. EPA-EFE/ALESSANDRO DI MARCO

Luciano Spalletti verður án efa í guðatölu hjá stuðningsfólki Napoli eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Hann mun þó ekki þjálfa liðið á næstu leiktíð.

Hinn 64 ára gamli Spalletti hefur komið víða við á ferli sínum en er hvað frægastur fyrir að stýra Roma, Inter og Zenit St. Pétursborg í Rússlandi. Hann tók við Napoli árið 2021 og hefur nú bundið enda á 33 ára bið félagsins eftir meistaratitli.

Þrátt fyrir frábæran árangur á leiktíðinni, þar sem Napoli komst einnig í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu hafði Spalletti gefið reglulega í skyn að hann myndi ekki halda áfram sem þjálfari liðsins. Spalletti segir aldurinn einfaldlega vera farinn að segja til sín og nú þurfi hann að hvíla sig.

Það hefur Aurelio De Laurentiis, skrautlegur eigandi félagsins, nú staðfest. Hann gerði það í viðtali við ítölsku sjónvarpsstöðina Rai 3.

„Hann er frjáls maður. Ég get aðeins þakkað honum fyrir og óska honum alls hins besta,“ sagði De Laurentiis.

Napoli mætir Sampdoria í lokaumferð Serie A á sunnudaginn kemur. Með sigri getur liðið brotið 90 stiga múrinn en sem stendur er liðið með 87 stig að loknum 37 umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×