Handbolti

ÍBV getur orðið Ís­lands­meistari í Eyjum í fyrsta sinn í tuttugu ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingibjörg Jónsdóttir, fyrirliði ÍBV, lyftir Íslandsmeistarabikarnum í Eyjum fyrir tuttugu árum.
Ingibjörg Jónsdóttir, fyrirliði ÍBV, lyftir Íslandsmeistarabikarnum í Eyjum fyrir tuttugu árum. úrklippa úr dv 2. maí 2003

Í kvöld fer Íslandsmeistarabikarinn á loft þegar ÍBV og Haukar mætast í oddaleik í úrslitaeinvígi í handbolta karla. ÍBV getur þar með orðið Íslandsmeistari á heimavelli í fyrsta sinn í tuttugu ár.

Eyjamenn gátu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á föstudaginn en töpuðu fyrir Haukum, 28-34. Hafnfirðingar jöfnuðu svo metin í einvíginu með sigri í fjórða leik liðanna í fyrradag, 27-24. Haukar eru fyrsta liðið síðan KA 2002 til að knýja fram oddaleik eftir að hafa lent 2-0 undir í úrslitaeinvígi.

Það er því ljóst að Íslandsmeistarar verða krýndir í Eyjum í kvöld. ÍBV getur þá orðið Íslandsmeistari í Eyjum í fyrsta sinn síðan kvennalið ÍBV varð Íslandsmeistari í handbolta 2003. ÍBV vann þá Hauka, 22-20, á Verkalýðsdaginn í þriðja leik liðanna og tryggði sér sinn annan Íslandsmeistaratitil. Sá fyrsti vannst einnig á heimavelli, 2000.

ÍBV varð aftur Íslandsmeistari kvenna 2004 en þá vannst titilinn á Hlíðarenda. Tveimur árum seinna urðu Eyjakonur Íslandsmeistarar í fjórða sinn og þá í Digranesi.

Karlalið ÍBV varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn 2014 eftir sigur á Haukum, 28-29, í frægum oddaleik á Ásvöllum. Annar Íslandsmeistaratitill Eyjamanna vannst einnig í Hafnarfirði 2018 en þá í Kaplakrika.

Karlalið ÍBV hefur unnið sjö stóra titla en engan í Vestmannaeyjum. Þeir urðu bikarmeistarar 1991, 2015, 2018 og 2020 í Laugardalshöllinni, Íslandsmeistarar 2014 og 2018 í Hafnarfirði og deildarmeistarar 2018 í Safamýri.

Leikur ÍBV og Hauka hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Seinni bylgjunnar fyrir leikinn hefst klukkan 18:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×