Ríkisútvarpið greinir frá.
Málið á rætur að rekja til yfirlýsingar Fjársýslu ríkisins í júlí í fyrra um að 260 af æðstu embættismönnum landsins hefðu fengið ofgreidd laun um það sem nam 105 milljónum króna. Var það vegna þess að stuðst var við röng viðmið við hækkun launa. Í kjölfarið voru launin lækkuð og fólk krafið um endurgreiðslu sem átti að gera upp á einu ári.
Dómarar vildu ekki una þessu og höfðaði einn þeirra, Ástríður Grímsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjaness, mál á hendur fjármála- og efnahagsráðuneyti. Eðli máls samkvæmt voru allir dómarar landsins taldir vanhæfir til þess að fjalla um málið. Aðrir lögfræðingar voru skipaðir í þeirra stað og dæmdu Ástríði í vil.
Töldu þeir að ekki hefði verið fylgt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við lækkunina og litið til sjálfstæðis dómara gagnvart ríkinu. Fallist var á kröfu Ástríðar og ákvörðun um endurkröfu ógilt.
Í frétt Ríkisútvarpsins segir að fjármála- og efnahagsráðuneyti ætli sér að áfrýja málinu beint til æðsta dómstóls landsins, Hæstaréttar.