Gestum sýningarinnar gefst færi á að ganga um borð í hina nýju Airbus A321neo þotu flugfélagsins Play og skoða bæði farþegarýmið og flugstjórnarklefann. Útlitslega er þessi flugvél eins og Airbus A321XLR, sem Icelandair hyggst kaupa. Til að skoðunarferð um flugvélina gangi sem greiðast fyrir sig þykir rétt að hafa tvennar dyr opnar, bæði að framan og aftan, svo að hringumferð myndist, og til þess þarf auðvitað tvo stiga.

Fyrirhugað er að Airbus-þotan verði ferjuð árdegis frá Keflavík yfir til Reykjavíkur og að hún taki sýningarhring yfir borginni fyrir lendingu laust fyrir klukkan tíu, ef skýjahæð leyfir. Sýningarsvæðið á Reykjavíkurflugvelli verður opnað klukkan 12 á hádegi en sýningaratriðin hefjast klukkan 13.
Þótt flugsýningunni eigi formlega að ljúka klukkan 16 ættu þeir sem vilja sjá flugtak þotunnar að fara ekki langt því það gæti orðið um klukkan 16.30. Eftir flugtak má auk þess búast við að flugmenn þotunnar sýni ýmsar flugkúnsir yfir vellinum, svo fremi að ekki verði lágskýjað.
Fleiri stórar flugvélar munu sjást. Þannig er ráðgert að Boeing 757 frá Icelandair fljúgi yfir sýningarsvæðið um hálfþrjúleytið. Þá er áformað að Hercules-herflutningaflugvél frá kanadíska flughernum renni sér yfir flugvöllinn.
Fyrsta rafmagnsflugvél Íslendinga, TF-KWH, verður bæði til sýnis á jörðinni og á lofti. Það verður í fyrsta sinn sem almenningi gefst kostur á því að skoða vélina á flugsýningu. Jafnframt er ráðgert að formaður borgarráðs Reykjavíkur, Einar Þorsteinsson, fari í flugferð með henni.

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélagsins, segir að einn af hápunktum sýningarinnar verði listflug Kanadamannsins Luke Penners. Af öðrum sýningaratriðum má nefna þyrluflug, listflug á svifflugu og tog á svifflugu, kappflug dróna, fisflug, gírókopta, svifvæng, paramótor og flugtök og lendingar svokallaðra STOL-véla, sem þurfa óvenju stutta braut.
Icelandair sýnir Dash-vél úr innanlandsfluginu, Landhelgisgæslan mætir á svæðið og einnig vél Isavia. Elsta flugvélin verður sennilega tvívængjan TF-OLD, sem var smíðuð árið 1946.
Frítt er inn á svæðið en meira um dagskrána má lesa á heimasíðu flugsýningarinnar. Þar má einnig fá upplýsingar um hvar best er að finna bílastæði.
Hér má upplifa stemmningu á flugsýningu árið 2010: