„Við erum ótrúlega spennt fyrir að mæta í Hafnarfjörðinn en ég á ættir mínar að rekja hingað og eigum við fjölskyldan verslunarsögu hér sem spannar yfir tvö hundrað ár og stendur því opnunin okkur mjög nærri,“ segir Lóa D. Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi, í tilkynningu.
Þar kemur fram að miklar breytingar standi yfir í Firðinum í Hafnarfirði en þar á sem dæmi að stækka verslunarsvæði og tengja verslunarsvæði við aðalverslunargötu bæjarins, Strandgötu. Þá er á plani að stórbæta veitingasvæðið og bæta við aðstöðu fyrir starfsemi Hafnarfjarðarbæjarins.
„Við erum afar glöð að taka á móti Lindex hér í Firðinum samhliða þeim miklu breytingum sem hér standa fyrir dyrum. Við teljum að barnafatnaður Lindex fari einstaklega vel með þeim verslunum og þjónustu sem er nú þegar til staðar í Firði, sem dæmi má nefna eina stærstu leikfangaverslun landsins. Við horfum því fram á veginn full af bjartsýni,“ segir Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri Fjarðarins.
Verslunin er staðsett í Firðinum við hlið Pósthússins þar sem áður var matvöruverslun og mun bjóða upp á ungbarnafatnað Lindex í stærðunum 44 til 86 sem inniheldur einungis umhverfisvæna, lífræna bómull ásamt barna- og unglingafatnaði í stærðunum 92 til 170.
Verslunin mun standa óbreytt á meðan á framkvæmdum stendur en unnið er að því að Lindex opni stærri og enn betri verslun í endurbættri verslunarmiðstöð í Hafnarfirði sem áætlað er að opni í lok næsta árs.
Lindex er ein stærsta tískufatakeðja Norður-Evrópu með um 430 verslanir í 16 löndum. Lindex býður upp á tískufatnað fyrir konur, undirföt, snyrtivörur og fylgihluti sem og fatnað á börn og unglinga á hagkvæmu verði.