Fótbolti

Real Madrid og Dort­mund búin að komast að sam­komu­lagi um Belling­ham

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jude Bellingham er á leið til Real Madrid.
Jude Bellingham er á leið til Real Madrid. Marco Steinbrenner/DeFodi Images via Getty Images

Real Madrid og Borussia Dortmund hafa komist að samkomulagi um kaupverðið á enska miðjumanninum Jude Bellingham.

Madrídarliðið mun greiða 103 milljónir evra fyrir leikmanninn sem samsvarar rúmlega 15,5 milljörðum króna.

Bellingham, sem er aðeins 19 ára gamall, hefur þrátt fyrir ungan aldur verið orðaður við mörg af stórliðum Evrópu undanfarin ár. Lengi vel gerðu flestir ráð fyrir því að hann myndi enda hjá Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, en nú virðist orðið ljóst að Real Madrid verður hans næsti áfangastaður.

Í tilkynningu á heimasíðu Dortmund kemur fram að Madrídingar greiði í það minnsta 103 milljónir evra fyrir þjónustu Bellingham, en heildarkaupverðið gæti þó farið upp í 133,9 milljónir evra með árangurstengdum bónusgreiðslum. Í íslenskum krónum talið gæti kaupverðið því farið vel yfir 20 milljarða.

Þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall býr Bellingham yfir mikilli reynslu. Hann lék sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir uppeldisfélag sitt Birmingham aðeins 16 ára gamall og hefur nú leikið 92 deildarleiki fyrir Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni. Þá á hann einnig að baki 24 leiki fyrir enska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×