Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir aðgerðir bankans gegn verðbólgu með hækkun vaxta og hertari skilyrðum fyrir lánum hafa skilað árangri. Á bláu súlunum sjáum við þróun íbúðaverðs frá árinu 2020 og rauða línan sýnir fjölda kaupsamninga þar sem punktalínan táknar meðaltalið. Það fór að draga úr raunverðshækkunum íbúða á seinni hluta ársins í fyrra og upp á síðkastið hefur raunverðið beinlínis lækkað.

„En það sem skiptir okkur máli er að þessi lánþegaskilyrði hafa tryggt að okkar mati að fólk hefur ekki verið að taka óhóflega áhættu þegar það er að kaupa fasteignir,“ segir Ásgeir.
Greiðslubyrði af lánum sem tekin hefðu verið frá janúar 2020 væri yfir 35 prósentum af ráðstöfunartekjum hjá 10,9 prósentum heimila, en hjá flestum heimilum væri greiðslubyrðin í kring um tuttugu prósent. Á gulu línunni sést síðan að greiðslubyrðin eykst ekki hjá eins mörgum sem hlutfall af launum þegar tillit hefur verið tekið til uppfærðrar launavísitölu.

Greiðslubyrðin hefur aukist um 100 til 180 þúsund krónur á mánuði hjá rúmlega fjórum prósentum heimila. Hjá einu til þremur prósentum heimila hefur greiðslubyrðin hins vegar aukist meira eða um 180 til 300 þúsund krónur á mánuði.

Seðlabankastjóri segir verðmæti fasteigna hins vegar hafa aukist um 60% frá árinu 2020. Þar með hafi eignamyndun verið hröð. Seðlabankinn hvetji lánveitendur til að sýna sveigjanleika við breytingu lánaskilmála, sérstaklega þar greiðslubyrðin fari yfir 35 prósent af launum.
„Hvort sem það felst í að lengja í (lánunum) - við höfum líka talað um þak á greidda vexti (þannig að hluti vaxta færist aftur fyrir lánstímann). Sem ég tel líka vel koma til greina. Það eru jafngreiðsluskilmálar á mörgum þessara lána. Svo er líka hægt að fara yfir í verðtryggð lán,“ segir Ásgeir.
Ný kynntar aðgerðir stjórnvalda jákvæðar
Seðlabankastjóri segir nýjustu aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu jákvætt skref. Mikil tekjuaukning ríkissjóðs þýði að hægt væri að hemja aukningu útgjalda enn meira án þess að fara í niðurskurð.
„Ég álít að þetta sé bara eitt skref af mörgum sem stjórnvöld hafa verið að taka. Mér finnst að þessi skref hafi verið jákvæð. Ég býst náttúrlega við einhverju meira þegar kemur að fjárlagagerðinni,“ segir seðlabankastjóri.
Þá leggist vinnumarkaðurinn vonandi líka á árarnar í baráttunni við verðbólguna.
„Það sem ég bjóst við sjálfur var að þegar við myndum byggja upp nafnvaxtakerfi, sem við gerðum, þá myndi vinnumarkaðurinn átta sig á því að þetta héldist í hendur, launahækkanir og vextir. Að of miklar launahækkanir leiddu til þess að vextir hækkuðu," segir Ásgeir Jónsson.