Sport

Glæsilegt met Elísabetar í Texas

Sindri Sverrisson skrifar
Elísabet Rut Rúnarsdóttir átti frábært fyrsta ár í bandarísku háskólaíþróttunum.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir átti frábært fyrsta ár í bandarísku háskólaíþróttunum. Instagram/@txstatexctrack

Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR náði sjöunda sæti í sleggjukasti á sínu fyrsta ári á bandaríska háskólameistaramótinu í frjálsum íþróttum, sem fram fer í Austin í Texas. Hún stórbætti eigið Íslandsmet.

Elísabet náði níunda og síðasta sætinu inn í úrslit á mótinu með því að kasta 64,93 metra. Þannig fékk hún þrjú aukaköst og það var í síðasta kastinu sem að hún stórbætti Íslandsmetið sitt, og vann sig upp í sjöunda sæti.

Elísabet kastaði þá 66,98 metra og bætti metið sitt um tæplega einn og hálfan metra en gamla metið var 65,53 metrar.

Elísabet var aðeins tveimur sentímetrum frá því að ná fimmta sætinu en sigurvegari varð Stephanie Ratcliffe sem kastaði 73,63 metra.

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir, einnig úr ÍR, varð í 15. sæti en hún kastaði lengst 63,62 metra, eftir að hafa bætt sig um rúma fimm metra á háskólatímabilinu og lengst kastað 65,42 metra á þessu ári.

Erna Sóley Gunnarsdóttir varð svo í 11. sæti í kúluvarpi en hún kastaði lengst 17,24 metra. Hana vantaði 56 sentímetrum lengra kast til þess að komast í níu manna úrslitin og fá þrjár aukatilraunir. Axelina Johansson vann greinina af öryggi en hún kastaði lengst 19,28 metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×