Erlent

450 starfs­mönnum Karolinska-sjúkra­hússins sagt upp störfum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Björn Zoëga er forstjóri Karolinska, fyrrverandi forstjóri Landspítalans og núverandi formaður stjórnar Landspítalans.
Björn Zoëga er forstjóri Karolinska, fyrrverandi forstjóri Landspítalans og núverandi formaður stjórnar Landspítalans. Karolinska

Um 450 starfsmönnum Karolinska-sjúkrahússins í Svíþjóð hefur verið sagt upp störfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjúkrahúsinu sem SVT greinir frá.

Um það bil 15.800 einstaklingar starfa hjá sjúkrahúsinu, þar af 3.700 í stjórnunar- og stuðningsstörfum. Margir þeirra 2,8 prósent starfsmanna sem missa vinnuna tilheyra þeim hópi.

Ráðningarbann hefur verið í gildi frá því í maí en 400 milljóna króna halli var á rekstri spítalans á fyrstu fjórum mánuðum ársins, sem jafngildir rúmum fimm milljörðum íslenskra króna.

„Þegar við sjáum að það hallar undan fæti í efnahagsmálum verðum við tafarlaust að grípa til afdráttarlausra aðgerða. Það er ekki auðveld ákvörðun að segja fólki upp, þar sem það hefur áhrif á samstarfsfólk og fjölskyldur þeirra. Uppsagnirnar ná ekki til heilbrigðisstarfsmanna og þannig stöndum við vörð um heilbrigðisþjónustuna, kennslu og rannsóknir. Þannig viðhöldum við þjónustunni og gæðum hennar fyrir sjúklinga okkar,“ er haft eftir Birni Zoëga, forstjóra Karolinska, í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Heilbrigðiskerfin þurfi að þola álag áfram

Formaður stjórnar Landspítalans segir ástand spítalans mjakast í rétta átt þrátt fyrir að enn sé langt í land. Enn sé of margt starfsfólk sem þjónusti sjúklinga ekki beint en það sé í höndum framkvæmdastjórnar og forstjóra spítalans að taka ákvarðanir um uppsagnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×