Erlent

Notuðu hvorki sæði né egg við gerð fóstur­vísa

Árni Sæberg skrifar
Magdalena Żernicka-Goetz er pólsk-breskur stofnfrumuvísindamaður í fremstu röð.
Magdalena Żernicka-Goetz er pólsk-breskur stofnfrumuvísindamaður í fremstu röð. Rannsóknarstofa Magdalenu Żernicka-Goetz

Vísindamenn við Cambridge háskóla í Bretlandi hafa ræktað fósturvísa úr stofnfrumum, alfarið án þess að nota sáðfrumur eða egg. Þróunin er talin vekja upp erfið siðferðis- og lagaleg álitamál.

Prófessor Magdalena Żernicka-Goetz, sem starfar bæði við Cambridge og California Institute of Technology í Bandaríkjunum, leiddi teymi vísindamanna sem komu að þróun aðferðarinnar.

„Við getum skapað mennsk fósturvísisleg sýni með því að endurforrita stofnfrumur,“ sagði hún í ávarpi á ráðstefnu Alþjóðlega félagsins um stofnfrumurannsóknir í dag. The Guardian greinir frá.

Í frétt Guardian segir að notkun fósturvísanna í læknisfræðilegum tilgangi sé ekki í sjónmáli. Það sé ólöglegt að koma þeim fyrir í legi í Bretlandi og víðar. Þá liggi ekki enn fyrir hvort fósturvísarnir geti þroskast fram yfir fyrstu stig þroskunar.

„Hugmyndin er sú að ef þú getur líkt eftir venjulegum þroska mennsks fósturvísis með notkun stofnfruma, þá getir þú aflað heilmikilla upplýsinga um það hvernig við  hefjum þroskann, hvað geti farið úrskeiðis, án þess að nota venjulega fósturvísa í rannsóknum,“ er haft eftir Robin Lovell-Badge, yfirmanni stofnfrumu-líffræði- og erfðafræðideilda Francis Crick stofnunarinnar í Lundúnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×