Fótbolti

Albert eftir­sóttur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Að minnsta kosti fjögur lið í Serie A íhuga nú að fá Albert í sínar raðir.
Að minnsta kosti fjögur lið í Serie A íhuga nú að fá Albert í sínar raðir. Vísir/Diego

Landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson virðist á óskalista þónokkurra liða í Serie A, ítölsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Hann var á dögunum orðaður við stórveldið AC Milan en nú hafa þrjú ný lið verið nefnd til sögunnar.

Albert var hreint út sagt frábær þegar Genoa tryggði sér sæti í Serie A eftir aðeins eitt ár í B-deildinni á Ítalíu. Í 36 deildarleikjum skoraði KR-ingurinn lunkni 11 mörk og gaf 5 stoðsendingar.

Það var nóg til að vekja athygli AC Milan og nú hefur ítalski blaðamaðurinn Gianluca Di Marzio greint frá því að minnst þrjú lið til viðbótar hafi áhuga á að fá Albert í sínar raðir.

Samkvæmt frétt á vefsíðu blaðamannsins er um að ræða Fiorentina, Sassuolo og Bologna. Andri Fannar Baldursson er leikmaður síðastnefnda liðsins en hann eyddi síðustu leiktíð á láni hjá NEC í Hollandi.

Fiorentina endaði í 8. sæti Serie A á síðustu leiktíð, Bologna endaði sæti neðar á meðan Sassuolo endaði í 13. sæti.

Albert var í byrjunarliði Íslands á dögunum þegar liðið tapaði 1-2 fyrir Slóvakíu í undankeppni EM 2024. Klukkan 18.45 í kvöld fer fram leikur Íslands og Portúgal á Laugardalsvelli. Verður leikurinn í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×