Fótbolti

Mourin­ho í langt bann eftir at­vikið í bíla­kjallara Puskas leik­vangsins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mourinho hafði ýmislegt að segja við Anthony Taylor bæði í og eftir leik Roma og Sevilla.
Mourinho hafði ýmislegt að segja við Anthony Taylor bæði í og eftir leik Roma og Sevilla. Vísir/Getty

Jose Mourinho hefur fengið fjögurra leikja bann í Evrópukeppnum eftir að hafa hreytt ókvæðisorðum að dómaranum Anthony Taylor eftir úrslitaleik Roma og Sevilla í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í lok síðasta mánaðar.

Sevilla lagði Roma að velli í úrslitaleik Evrópudeildarinnar þegar liðin mættust á Puskas leikvanginum í Búdapest í lok maí. Úrslit réðust í vítaspyrnukeppni og var Jose Mourinho knattspyrnustjóri Roma allt annað en sáttur með frammistöðu dómarans Anthony Taylor í leiknum.

Portúgalinn fékk að sjá gula spjaldið í leiknum sjálfum en alls gaf Taylor þrettán leikmönnum gult spjald sem er met. Það er hins vegar vegna hegðunar Mourinho eftir leik sem hann er dæmdur í leikbann. Í bílakjallara Puskas leikvangsins sá Mourinho til dómarateymisins þegar þeir voru á stíga upp í rútu sína og lét hann fúkyrðaflauminn rigna yfir Taylor og félaga.

Hann blótaði ítrekað, kallaði frammistöðu teymisins hneyksli og lét frekari orð falla á ítölsku. Þegar Taylor var síðan á flugvellinum í Búdapest daginn eftir ásamt fjölskyldu sinni fékk hann óblíðar móttökur hjá stuðningsmönnum Roma sem þar voru staddir. Var einn stuðningsmaður ákærður vegna atviksins á flugvellinum.

UEFA hefur nú úrskurðað Mourinho í fjögurra leikja bann í Evrópukeppni fyrir „móðgandi og óviðeigandi“ orðalag gagnvart Taylor. 

Fyrir utan ákæruna á hendur Mourinho fengu félögin ákúrur vegna hegðunar leikmanna og stuðnignsmanna á leiknum. Roma fær ekki að selja stuðningsmönnum sínum miða á næsta útileik liðsins í Evrópukeppni og þá fékk félagið sömuleiðis sekt þar sem stuðningsmenn liðsins köstuðu hlutum inn á völlinn og kveiktu á blysum í stúkunni.


Tengdar fréttir

Hneyksluð vegna árása að Taylor

PMGOL, samtök dómara á Englandi, hafa fordæmt árásir sem dómarinn Anthony Taylor varð fyrir á flugvellinum í Budapest í gær. UEFA hefur einnig gefið út yfirlýsingu.

Mourinho úthúðaði dómaranum

Jose Mourinho tapaði sínum fyrsta úrslitaleik í Evrópukeppni í gær þegar Roma beið lægri hlut í úrslitum Evrópudeildarinnar. Ungur drengur fékk verðlaunapening Portúgalans eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×