Viðskipti innlent

Syst­kinin leggjast gegn yfir­tökunni

Árni Sæberg skrifar
Halldór Benjamín gerði það að sínu fyrsta verki í starfi forstjóra Regins að boða yfirtöku á Eik. Gunnari Þór Gíslasyni líst ekkert á það.
Halldór Benjamín gerði það að sínu fyrsta verki í starfi forstjóra Regins að boða yfirtöku á Eik. Gunnari Þór Gíslasyni líst ekkert á það. Vísir

Brimgarðar, langsamlega stærsti eigandi fasteignafélagsins Eikar, leggjast gegn yfirtökutilboði Regins í félagið. Brimgarðar eru dótturfélag Langasjós, eignarhaldsfélags Mata-systkinanna svokölluðu.

Töluverða athygli vakti á dögunum þegar Reginn, næststærsta fasteignafélag landsins, kynnti fyrirhugað yfirtökutilboð í Eik, það þriðja stærsta. Langsamlega stærsti hluthafi Eikar er fjárfestingafélagið Brimgarðar, með rúmlega fjórðungshlut. Brimgarðar er eitt fjölmargra félaga samstæðunnar Langasjávar. 

Langisjór er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna, sem helst eru kennd við matvælafyrirtækið Mata og leigufélagið Ölmu.

Greint var frá því á Innherja fyrir skömmu að hópur fjárfesta sem ræður yfir talsverðum meirihluta hlutafjár í Eik, einkum lífeyrissjóðir, hefur í markaðsþreifingum, sem hófust í byrjun mánaðar tekið jákvætt í yfirtökutilboð Regins. 

Í Morgunblaði dagsins er greint frá afstöðu Brimgarða. Hún er neikvæð.

Hvetur Reginn til að hætta við

Gunnar Þór Gíslason, forsvarsmaður Brimgarða, staðfestir þetta í samtali við Morgunblaðið. Hann segist  hvetja stjórn Regins til að falla frá hugmyndum um að leggja fram yfirtökutilboð í ljósi eindreginnar andstöðu Brimgarða.

Brimgarðar hafi þegar kynnt Regin um neikvæða afstöðu sína en Reginn hafi samt sem áður sent frá sér formlega tilkynningu þar sem skiptagengi var lagt til í yfirtökunni. Það hafi verið óhagstætt fyrir hluthafa Eikar.

Gunnar Þór furðar sig á stjórn Regins skyldi ekki bjóða neitt yfirverð fyrir hlutina í Eik í ljósi þess að um yfirtökutilboð er að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×