Mathöllin opnaði í Vatnsmýrinni í Reykjavík í ágúst í fyrra og voru þá átta veitingastaðir þar með rekstur. Eftir því sem Vísir kemst næst hefur fimm þeirra verið lokað og eru nú þrír eftir.
Staðirnir sem hafa lokað eru Mikki refur, Caliente, Soupreme, BangBang og Fura. Í plássi þeirra er búið að koma upp skilti þar sem viðskiptavinum er tilkynnt að brátt muni þar opna nýir veitingastaðir. Eftir standa veitingastaðirnir Stundin, Natalía og Tonto.

Vísir hefur ekki náð tali af Birni Braga Arnarssyni, eiganda og framkvæmdastjóra mathallarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Aðrir eigendur hafa bent á Björn í samtölum við Vísi en ekki er að heyra á þeim að reksturinn gangi erfiðlega.
Vera Antonsdóttir, framkvæmdastjóri Grósku, segir í samtali við Vísi að skert starfsemi sé í mathöllinni í júní. „Og það er verið að fara í breytingar og endurskipulagningu,“ segir Vera sem segir þær í höndum rekstraraðila mathallarinnar. Ekki séu áætlanir um að mathöllin hverfi úr húsinu.