Fyrir rétt rúmlega ári síðan greindi Drake frá því að hann væri að vinna að ljóðabók. Sú er núna loksins komin út.
Ljóðabókin ber titilinn Titlar eyðileggja allt: Vitundarstreymi (e. Titles Ruin Everything: A Stream of Consciousness), er 168 síður og er skrifuð í samstarfi við Kenza Samir, samstarfsfélaga Drake til margra ára.
Meðal umfjöllunarefna eru samkvæmt vefsíðu útgefandans Phaidon „rómantík, frægð og ástarsambönd“. Þar er líka hægt að forpanta bókina á aðeins 14,95 pund.

Drake hefur auglýst bókina í fréttamiðlum og fréttablöðum með QR-kóða sem leiðir fólk að vefsíðunni titlesruineverything.com.
Þar tekur við manni hvítur bakgrunnur með skilaboðunum „Ég gerði plötu sem fer með bókinni. Þau segjast sakna gamla Drake, stelpa ekki storka mér“ og vísar þar í sitt eigið lag „Headlines“ af plötunni Take Care.
Neðst stendur síðan „FYRIR ALLA HUNDANA“. Hins vegar stendur ekkert um það hvenær platan á að koma út.

Það hefur verið annasamt hjá Drake undanfarið ár, 17. júní á síðasta ári kom út dansplatan Honestly Nevermind og í nóvember sama ár gaf hann út plötuna Her Loss með 21 Savage. Þeir félagar eru síðan að fara á tónleikaferðalag um öll Bandaríkin sem hefst á föstudaginn.
Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á lagið sem Drake vísar í: