Enski boltinn

Óformlegu tilboði Bayern í Kane hafnað

Smári Jökull Jónsson skrifar
Harry Kane á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Tottenham.
Harry Kane á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Tottenham. Vísir/Getty

Tottenham Hotspur hefur hafnað 60 milljóna punda tilboði frá FC Bayern í stjörnuframherjann Harry Kane. Kane á eitt ár eftir af samningi sínum við Tottenham.

Harry Kane hefur verið töluvert í fréttunum undanfarið og aðallega í tengslum við mögulega brottför hans frá Tottenaham Hotspur. Í morgun bárust fregnir af því að FC Bayern hefði lagt fram tilboð í framherjann knáa sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Lundúnaliðið og gæti því yfirgefið það frítt að ári liðinu.

Í frétt Skysports um málið kemur fram að Bayern hafi lagt fram munnlegt tilboð í Kane og að ekkert formlegt tilboð hafi borist. Tottenham hafnaði hins vegar tilboði Bayern en félagið vill alls ekki missa Kane frá sér sem hefur töluvert verið orðaður við Manchester United í sumar.

Harry Kane sló markamet Tottenham Hotspur í vetur og er kominn ansi nálægt markameti Alan Shearer í ensku úrvalsdeildinni. Shearer skoraði 260 mörk á sínum ferli fyrir Blackburn og Newcastle en Kane er kominn með 212 mörk í ensku deildinni.

Í dag staðfesti Tottenham komu Guglielmo Vicario frá ítalska liðinu Empoli. Vicario er ítalskur markvörður sem virðist eiga að taka stöðu Hugo Lloris sem líklegast er á leiðinni frá Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×