Frá þessu greinir á vef Landsbankans. Þar segir að um sé að ræða húsnæði sem sé í byggingu að Hofsbót 2 og einnig hluta jarðhæðar Hofsbótar 4.
Húsin séu aðeins steinsnar frá núverandi húsakynnum bankans við Ráðhústorgið sem seld voru fjárfestingafélaginu Kaldbaki í lok síðasta árs á 685 milljónir króna. Kaldbakur er fjárfestingafélag sem heldur utan um fjárfestingar Samherja. Húsið, sem teiknað var af Guðjóni Samúelsssyni og klárað af Bárði Ísleifssyni, hefur um áratugaskeið hýst starfsemi Landsbankans.
Nýja húsnæði bankans verður samtals um 600 fermetrar að stærð.
„Útibúið á Akureyri er ein af kjarnastarfstöðvum bankans og þar vinna nú um 30 manns. Flest vinna í útibúinu sjálfu en einnig er þar stórt þjónustuver sem þjónar viðskiptavinum um allt land. Nýja húsnæðið er mun hagkvæmara í rekstri og hentar betur undir starfsemina.
Landsbankinn bauð gamla Landsbankahúsið við Ráðhústorg til sölu í fyrrahaust og tók í kjölfarið tilboði hæstbjóðanda. Gamla húsið er 2.300 fermetrar að stærð,“ segir í tilkynningu bankans.
