Enski boltinn

Shearer býðst til að keyra Kane sjálfur til München

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Shearer hefur starfað mikið í sjónvarpi sem knattspyrnusérfræðingur eftir að skórnir fóru upp á hillu.
Alan Shearer hefur starfað mikið í sjónvarpi sem knattspyrnusérfræðingur eftir að skórnir fóru upp á hillu. Getty/Catherine Ivill

Alan Shearer hefur skorað mest allra í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og hefur átt það met í nokkra áratugi. Nú nálgast hins vegar einn maður metið.

Harry Kane er kominn með 213 mörk og er nú 47 mörkum frá metinu sem er 260 mörk. Kane skoraði þrjátíu mörk á síðustu leiktíð og gæti náð metinu á næstu tveimur tímabilum.

Það hefur aftur á móti verið mikið skrifað og skrafað í sumar um að Kane sé á förum frá Tottenham þótt að félagið sjálft komi aftur og aftur fram og segi að hann sé ekki til sölu.

Nú síðast var Kane orðaður við þýsku meistarana í Bayern München og sumar fréttir gengu svo langt að enski landsliðsfyrirliðinn væri búinn að semja um kaup eða kjör. Tottenham á að hafa hafnað einu tilboð en Bæjarar ætla ekki að gefast upp.

Fari Kane til Bayern þá er ljóst að metið hans Shearer muni lifa eitthvað lengur og jafnvel um ókomna tíð.

Shearer grínaðist um það sjálfur að hann vilji endilega horfa á eftir Kane í þýsku deildina og bauðst meira að segja til að keyra hann frá London til München.

„Ef Harry Kane vill ganga til liðs við Bayern þá skal ég keyra andskotans bílinn þangað sjálfur. Ég geri allt til þess að verja metið mitt,“ sagði Alan Shearer við The Athletic.

Shearer skoraði mörkin sín í 441 leik en Kane hefur spilað 320 leiki. Kane er því með 0,66 mörk í leik á móti 0,59 hjá Shearer.

Kane hefur einmitt skorað 47 mörk á síðustu tveimur tímabilum en það er einmitt sá markafjöldi sem honum vantar til að jafna metið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×