Íslenski boltinn

Reyna að vinna fyrsta gervigrasleikinn sinn í 654 daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vuk Oskar Dimitrijevic og félagar í FH verða að fara að komast yfir gervigrasgrýluna í liðinu.
Vuk Oskar Dimitrijevic og félagar í FH verða að fara að komast yfir gervigrasgrýluna í liðinu. Vísir/Hulda Margrét

FH-ingar heimsækja nágranna sína í Stjörnunni í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld en leikurinn fer fram á gervigrasvelli Garðbæinga.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Tveir síðustu leikir þrettándu umferðar fara fram í kvöld en á sama tíma tekur Fylkir á móti Víkingi.

FH-ingar hefur gengið mjög illa á gervigrasvöllum undanfarin tvö tímabil svo ekki sé meira sagt.

FH-ingar hafa ekki unnið deildarleik á gervigrasi síðan 13. september 2021. Síðan hefur FH spilað tólf leiki á gervigrasi og uppskeran eru tvö stig.

Þetta þýðir að aðeins 2 af 46 stigum FH undanfarin tvö tímabil hafa unnist á gervigrasi eða að 96 prósent stiga FH-inga hafa komið í hús á náttúrulegu grasi.

Síðasti sigur FH-inga á gervigrasi kom einmitt í hús á Stjörnuvellinum í september 2021 þegar Hafnarfjarðarliðið vann 4-0 sigur. FH varð manni fleiri frá 40. mínútu í þeim leik.

Enginn af markaskorurum FH í leiknum, Matthías Vilhjálmsson (2 mörk), Baldur Logi Guðlaugsson og Jónatan Ingi Jónsson eru enn hjá félaginu. Jónatan Ingi er úti í atvinnumennsku, Matthías er hjá Víkingi og Baldur spilar með Stjörnunni.

  • Síðustu tólf gerigrasleikir FH-inga í Bestu deildinni:
  • - 2023 -
  • 1-1 jafntefli á móti Val
  • 0-2 tap fyrir Víkingi
  • 2-4 tap fyrir KA
  • 2-4 tap fyrir Fylki
  • 2-2 jafntefli á móti Fram
  • - 2022 -
  • 0-3 tap fyrir Fram
  • 1-2 tap fyrir Stjörnunni
  • 0-2 tap fyrir Val
  • 0-1 tap fyrir Fram
  • 0-1 tap fyrir KA
  • 0-3 tap fyrir Breiðabliki
  • 1-2 tap fyrir Vikingi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×