Félag Róberts minnkar stöðu sína í Lotus með sölu upp á 33 milljarða
Fjárfestingafélagið Aztiq, stærsti hluthafi Alvotech og stýrt af Róberti Wessman, hefur lokið við sölu á helmingi af nærri tuttugu prósenta hlut sínum í samheitalyfjafyrirtækinu Lotus í Taívan fyrir samtals jafnvirði um 33 milljarða króna. Hluturinn var seldur á um átta prósenta lægra verði en nam síðasta dagslokagengi Lotus. Aztiq hefur lýst því yfir að félagið áformi að leggja aukna fjármuni til að styðja við rekstur Alvotech og hefur hlutabréfaverð þess núna rétt úr kútnum og hækkað um meira en fjórðung á síðustu tveimur viðskiptadögum.