Viðskipti innlent

Ein­stök og Thule fá ekki ný nöfn í bráð

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Anna Regína segir eðlilegt að sögusagnir fari á kreik þegar breytingar verða.
Anna Regína segir eðlilegt að sögusagnir fari á kreik þegar breytingar verða.

Ekki er á döfinni hjá Coca-Cola Europa­cific Partners á Ís­landi að enska nöfn fleiri vöru­merkja á vegum fyrir­tækisins í bráð. Vöru­tegundir líkt og bjór­tegundirnar Ein­stök og Thule munu á­fram verða með sín nöfn.

Þetta segir Anna Regína Björns­dóttir, for­stjóri CCEP á Ís­landi í sam­tali við Vísi. Fyrir­tækið til­kynnti í síðustu viku um nafna­breyting á sóda­vatninu sem hingað til hefur heitið Toppur. Það fær nú nafnið Bonaqua en verður að öðru leyti eins. 

Vísi barst til eyrna að fyrir­hugaðar væru nafna­breytingar á öðrum vörmu­erkjum CCEP líkt og bjór­tegundunum Ein­stök og Thule. Anna Regína segir þær sögu­sagnir úr lausu lofti gripnar.

Breytingarnar á nafni Topps vöktu tölu­verða at­hygli. Ei­ríkur Rögn­valds­son prófessor emi­ritus í ís­lenskri mál­fræði er meðal þeirra sem gagn­rýnt hafa nafna­breytinguna. Hefur hann sagt það miður að þarna sé verið að kasta ís­lensku nafni á sóda­vatns­drykknum fyrir róða.

Ei­ríkur ræddi málið meðal annars í Bítinu á Bylgjunni í síðustu viku. Hlusta má á við­talið hér fyrir neðan.

Þá gagn­rýndi Björk Eiðs­dóttir, fyrr­verandi rit­stjóri helgar­blaðs Frétta­blaðsins jafn­framt breytingarnar. Björk hefur reglu­lega lagt orð í belg þegar kemur að notkun ensku í markaðs­setningu á Ís­landi líkt og í fyrra þegar um­deild út­gáfa af hafra­mjólkinni Oatly fór í loftið á ensku.

Björk deilir við­tali mbl.is við Önnu og segist ekki sann­færð um að Anna Regína og fé­lagar hjá CCEP deili á­hyggjum af ís­lenska tungu­málinu. Hún rifjar upp að CCEP hafi áður heitið Vífil­fell og selt drykki með ís­lenskum nöfnum líkt og Topp, Tró­pí og Svala. Spyr hún hvort Ein­stök verði næstur til að hverfa.

„Tungu­málið er ekki bara til að hampa í bókum og á tylli­dögum, það verður að vera lifandi í um­hverfi okkar svo það eigi mögu­leika í nýjum heimi.“

Sögu­sagnir

Anna Regína segir í samtali við Vísi ekkert hæft í sögu­sögnum um að Ein­stök og Thule muni brátt hljóta ný nöfn. Hún segir það skiljan­legt að slíkar sögu­sagnir fari á flug þegar stórar breytingar séu gerðar líkt og nú.

„En það eru engar frekari breytingar í pípunum hjá okkur. Bæði Ein­stök og Thule eru sterk og góð vöru­merki sem við erum á­nægð með.“

Áður hefur Anna Regína sagt við mbl.is að hún skilji vel gagn­rýnina á breytingarnar. Fyrir­tækið taki undir sjónar­mið um verndun ís­lenskrar tungu. Allt sé ís­lenskað sem hægt er að ís­lenska.

„Varðandi vöru­merkið sjálft þá er sú á­kvörðun um að breyta nafn­inu á vör­unni flók­in og hluti af stærri mynd hvað varðar markaðs­starf, vöru­þróun og aðra þætti í al­þjóð­legu sam­hengi og varð þessi breyt­ing að lok­um lend­ing­in,“ seg­ir Anna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×