Enski boltinn

Bayern búið að leggja fram betr­um­bætt til­boð í Kane

Smári Jökull Jónsson skrifar
Harry Kane á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Tottenham.
Harry Kane á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Tottenham. Vísir/Getty

Bayern Munchen hefur lagt fram annað tilboð í enska framherjann Harry Kane. Leikmaðurinn sjálfur er spenntur fyrir flutningi til Þýskalands.

Bayern Munchen lagði á dögunum fram tilboð í Harry Kane leikmann Tottenham og enska landsliðsins. Tilboðinu var hafnað en Kane á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum og gæti því yfirgefið Lundúnafélagið frítt næsta sumar.

Kane hefur verið orðaður við Bayern undanfarnar vikur og virðist sem hann sé helsta skotmark knattspyrnustjórans Thomas Tuchel sem þekkir vel til Kane síðan hann var knattspyrnustjóri Chelsea.

Sky í Þýskalandi greinir frá því í dag að Bayern sé búið að leggja fram annað og betrumbætt tilboð í Kane. Tilboðið hljómar upp á 80 milljónir evra auk bónusgreiðsla. Það er tíu milljónum evra hærra en síðasta tilboð.

Sky segir að Kane hafi sjálfur lýst yfir vilja sínum að ganga til liðs við Bayern en Kane varð í vetur markahæsti leikmaður Tottenham frá upphafi og gæti á næstu árum slegið markamet Alan Shearer í ensku úrvalsdeildinni haldi hann áfram að spila á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×