Íslenski boltinn

Bestu mörkin: Missa tvo leik­menn á HM en fá samt ekki frestun á leikjum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tahnai Annis er leikmaður Þór/KA en hún er einnig fyrirliði filippseyska landsliðsins sem er að fara á HM.
Tahnai Annis er leikmaður Þór/KA en hún er einnig fyrirliði filippseyska landsliðsins sem er að fara á HM. Vísir/Vilhelm

Þór/KA þurfti ekki aðeins að spila án fyrirliða síns í Bestu deildinni í gær heldur var liðið einnig búið að missa tvær landsliðskonur á HM kvenna.

Sandra María Jessen, fyrirliði Þór/KA handarbrotnaði á dögunum og hefur misst af síðustu leikjum en í gær var liðið líka án tveggja lykilmanna.

Bestu mörkin ræddu fjarveru þeirra Tahnai Annis og Dominique Randle í tapleiknum á móti ÍBV á Akureyri í gær.

Báðar eru þær að fara með landsliði Filippseyja á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en Annis er fyrirliði landsliðsins.

„Vissulega er þetta búið að liggja lengi fyrir því þær Tahnai og Dominique eru lykilkonur í filippseyska landsliðinu sem er að fara á HM. Mér skilst að norðanfólk hafi verið að athuga með frestun síðan í vetur en KSÍ gefur ekki sjálfkrafa frestun þó að þetta sé HM. Mér finnst það skrýtið,“ sagði Mist Rúnarsdóttir, sérfræðingur í Bestu mörkunum.

„Þór/KA þarf að óska eftir þessu sjálft og þá má ÍBV segja nei. Ef að það finnast ekki leikdagar þá segir ÍBV auðvitað nei. Maður skilur það en það er skrýtið að knattspyrnusambandið grípi ekki inn í. Við erum að tala um tvo leikmenn sem eru að fara á HM. Er þetta ekki aðalmótið,“ spurði Mist.

„Við erum alveg til í að vera með leikmann í íslensku deildinni sem er að fara á HM. Hugmynd fyrir næsta HM alla vegna. Aðstoðum,“ sagði Helena Ólafsdóttir.

„Vonandi verðum við bara á næsta HM og þá verður sjálfkrafa frí,“ sagði Mist en það má horfa á umræðuna hér fyrir neðan.

Klippa: Bestu mörkin: Tveir lykilmenn Þór/KA farnar á HM



Fleiri fréttir

Sjá meira


×