Innlent

Við­kvæmir neyt­endur sjóði vatn vegna gruggs í vatns­bóli

Árni Sæberg skrifar
Neytendur sem fá vatn frá vatnsbólinu í Grábrókarhrauni ættu að sjóða það fyrir neyslu.
Neytendur sem fá vatn frá vatnsbólinu í Grábrókarhrauni ættu að sjóða það fyrir neyslu. Catherine Falls/Getty

Í kjölfar jarðskjálftans í gærkvöldi hefur grugg aukist í vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni. Aukning gruggs getur minnkað vatnsgæði og því eru viðkvæmir neytendur beðnir um að sjóða neysluvatn til drykkjar í varúðarskyni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum. Þar segir að vatnsbólið þjóni Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Borgarnes fái vatn frá Seleyri og Hafnarfjalli og tilmælin nái því ekki til íbúa og fyrirtækja í Borgarnesi.

Þá segir að verið sé að taka sýni til staðfestingar aukningar gruggs og að vatnið sé gegnumlýst til að koma í veg fyrir óæskilegar örverur en virkni lýsingar geti minnkað við aukið grugg.

„Vatnsból Veitna í Grábrókarhrauni er viðkvæmara fyrir skjálftavirkni en önnur vatnsból okkar og hafa sérfræðingar Veitna verið að störfum í alla nótt. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands er að taka sýni til að staðfesta vatnsgæði og munu niðurstöður liggja fyrir á morgun. Við erum að biðja viðkvæma neytendur að sjóða vatn eingöngu í varúðarskyni þar til niðurstöður mælinga liggja fyrir,“ er haft eftir Sólrúnu Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna, í tilkynningu.

Þá segir að vegna brunavarna sé ekki hægt að taka vatnsbólið úr rekstri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×