Skoðun

Af­myndun þjóðar­sálar

Erna Mist skrifar

Áhugi minn á tilvonandi eldgosi hefur verið yfirstiginn af áhuga mínum á umræðunni í kringum það. Um leið og við byrjum að finna fyrir skjálftahrinum og förum að vænta eftir gosi er það fyrsta sem við viljum vita ekki hvort það muni koma til með að hafa áhrif á loftgæði, búskap eða almenn lífsskilyrði - heldur hvort það verði til þess fallið að auka streymi ferðamanna hingað til lands. Hvenær var þetta falska samasemmerki dregið milli ferðaþjónustunnar og almannahagsmuna? 

Þegar kemur að ferðaþjónustunni hérlendis má gróflega greina beturborgandi ferðamenn frá óbreyttum túristum, þar sem beturborgandi ferðamenn hvetja til innlendrar uppbyggingar á hágæða upplifunum og faglegri þjónustu, á meðan massatúrisminn eykur framleiðslu láglaunastarfa og plantar lundabúðum sem dreyfa sér eins og lúpínur um miðborgina. 

Í alþjóðavæddum heimi er sérhver borg vígvöllur tveggja andstæðra afla: menningarinnar og massatúrismans. Borg sem heldur í sérkenni sín, upphefur gildin sín og fagnar eigin sögu er menningarborg - en borg sem gleymir sögu sinni og fórnar sérkennum sínum til að undirgangast alþjóðlega tískustrauma er eins og allar aðrar túristaborgir - fjöldaframleidd og innantóm. 

Hvar sköpuðust þessi hugrenningatengsl milli fjölda ferðamanna og þjóðarstolts? Hvenær urðu Íslendingar svona hliðhollir starfsgrein sem grefur undan íslenskunni, afmyndar menningareinkenni höfuðborgarinnar, og er svo skringilega skattlögð að hún skilar sér varla í ríkiskassann? Eins og augljós dæmisaga um gæði umfram magn er massatúrisminn tilefnislaust fagnaðarerindi.

Höfundur er listmálari.




Skoðun

Sjá meira


×