Viðskipti innlent

„Endaði þannig að Davíð Odds­son borgaði bara skipið“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hermann Guðmundsson, forstjóri Kemi, var forstjóri N1 árin 2006 til 2012.
Hermann Guðmundsson, forstjóri Kemi, var forstjóri N1 árin 2006 til 2012. Vísir/Vilhelm

Her­mann Guð­munds­son, for­stjóri Kemi og fyrr­verandi for­stjóri N1, segist aldrei hafa litið Norð­menn sömu augum eftir að Ís­land varð næstum því olíu­laust í nokkrar vikur skömmu eftir banka­hrun á Ís­landi árið 2008 þegar norska olíu­fyrir­tækið Statoil neitaði N1 um 60 daga greiðslu­frest.

Her­mann, sem var for­stjóri N1 árin 2006 til 2012, rifjaði þetta upp í hlað­varps­þættinum Chess after Dark en Við­skipta­blaðið fjallaði fyrst um málið. Her­mann segir N1 hafa leitað til Statoil, sem nú heitir Equ­in­or, vegna flutnings á olíu að and­virði 23 milljóna dala til landsins.

Þá hafi N1 hins vegar einungis verið með 3,5 til 4 milljarða króna í lausa­fé og al­mennt þurfi að stað­greiða olíu. N1 hafi í ljósi stöðunnar óskað eftir 60 daga greiðslu­fresti gegn banka­á­byrgð frá Seðla­banka Ís­lands. Fé­lagið hafi átt í við­skiptum við Statoil í 30 ár vand­kvæða­laust.

Seðla­bankinn til bjargar

„Það kom svar daginn eftir að því miður myndi það ekki ganga. Seðla­bankinn nyti ekki trausts,“ segir Her­mann sem bætir því við að N1 hafi svarað Statoil sam­dægurs og fengið lítið skuld­settan ríkis­sjóð til að á­byrgjast greiðsluna. Statoil hafnaði hins vegar beiðninni.

„Það endaði bara þannig að Davíð Odds­son, sem þá var seðla­banka­stjóri, borgaði bara skipið, þ.e. þessar 23 milljónir dollara. Hann var eini maðurinn sem átti gjald­eyri,“ segir Her­mann. N1 greiddi Seðla­bankanum til baka í krónum.

„Við fengum á­fyllinguna. Að öðrum kosti hefði verið svona 4-5 vikna bið eftir að komast á pípuna aftur, ef skipið okkar hefði þurft að fara. Það bjargaði því að það varð ekki olíu­laust á Ís­landi.“

Norska fjár­mála­ráðu­neytið hafnaði beiðninni

Her­mann lýsir því að hann hafi beitt sér fyrir því eftir þetta að koma í veg fyrir að Statoil gæti tekið þátt í næsta út­boði er­lendra olíu­sala til N1 en ís­lensk olíu­fé­lög hafa yfir­leitt bara einn er­lendan olíu­birgi.

Farið var í slíkt út­boð annað hvert ár og Statoil oftast fyrir­tækið með besta boð, enda með stóra olíu­hreinsunar­stöð í Noregi. N1 samdi hins vegar við finnska olíu­fé­lagið Nes­ta Oil og stóð það sam­starf yfir í tvö til þrjú ár.

„Það var í rauninni mitt svar við þessari trakteringu Statoil á þessum tíma. Þeim var alveg sama um ís­lenska þjóð og alveg sama um þann vanda sem stóð fyrir dyrum. Þetta var al­gjör­lega minni­háttar mál fyrir þá.“

Her­mann segir síðast hafa komist að því að norska fjár­mála­ráðu­neytið hafi hafnað beiðni for­svars­manna Statoil, sem er í meiri­hluta­eigu norska ríkisins, um að veita N1 greiðslu­frest.

„Það var gert til þess að neyða Ís­lendinga í eitt­hvað prógramm hjá Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðnum. Það átti bara að svelta okkur til hlýðni með öllum ráðum. Síðan hef ég aldrei litið Norð­menn sömu augum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×