Lífið

Látinn vinur opnaði himnana á brúðkaupsdaginn

Íris Hauksdóttir skrifar
Hjónin Eygló Rún Karlsdóttir og Sverrir Rúnarsson giftu sig við glæsilega athöfn fyrr í sumar. 
Hjónin Eygló Rún Karlsdóttir og Sverrir Rúnarsson giftu sig við glæsilega athöfn fyrr í sumar.  Íris Dögg Einarsdóttir

Hjónin Eygló Rún Karlsdóttir og Sverrir Rúnarsson giftu sig með pomp og prakt fyrr í sumar en sama dag fagnaði Sverrir fertugsafmæli sínu. Eygló segist hafa alfarið séð ein um undirbúning og aldrei hafi neitt annað komið til greina en að brúðkaupsveislan færi fram á Hótel Geysi.

„Undirbúningur fyrir stóra daginn byrjaði síðasta sumar þegar við loksins sáum að við hefðum tíma til að gifta okkur,“ segir Eygló í samtali við blaðakonu.

„Dagsetningin 27. maí var fyrir valinu ekki aðeins af því þann dag fagnaði Sverrir fertugsafmæli sínu heldur líka þar sem hann bar upp á laugardegi.

Eins hugsuðum við að í lok maí gæti ekki verið annað en gott veður. Það kom ekkert annað til greina en að séra Axel myndi gifta okkur í Selfosskirkju og halda veisluna á Hótel Geysi og þegar við fengum að vita að þetta þrennt gekk upp var undirbúningurinn formlega hafinn.“

Örlögin tóku völdin

Eygló segist sjálf hafa alfarið séð um allan undirbúning. „Síðastliðið haust hófst ég strax handa við að safna saman gátlistum og merkja við. 

Í byrjun árs fékk ég þó símtal um að söngvarinn sem ég hafði bókað kæmist ekki og í kjölfarið heyrði ég í Jóhönnu Guðrúnu sem var laus. Ég trúi innilega að þarna hafi örlögin tekið í taumana því hún var gjörsamlega frábær og við hefðum ekki getað fengið neinn betri í þetta verkefni.“

Sjálf klæddist Eygló fallegum kjól frá Justin Alexander en hann keypti hún frá versluninni Loforð síðastliðið haust. Aðspurð um kjólaráð fyrir komandi brúðir vill Eygló minna á að skoða kjóla með góðum fyrirvara og ítrekar að ekki sé ráð nema í tíma sé tekið.

Fallegi brúðarkjóllinn sem Eygló skartaði nýtur sín vel hér en hann er úr smiðju Justin Alexander.Íris Dögg Einarsdóttir

„Sverrir klæddist Gucci jakkafötum sem hann fékk í gjöf frá góðum vini sínum. Vinurinn féll frá tólf dögum fyrir brúðkaupið. 

Þrátt fyrir að hann hafi ekki skálað með okkur á stóra deginum var hann svo sannarlega með í hjörtum okkar. Við trúum því bæði að hann hafi opnað himnana því þetta var að því er ég best veit eini dagurinn í maí þar sem sást til sólar og himininn var blár. 

Við teljum okkur í það minnsta trú um að hann hafi verið að gleðja okkur eins og hann gerði svo oft í lifanda lífi.“

Þá fyrst kom fiðringurinn

Þegar einungis mánuður var til stefnu segir Eygló undirbúninginn hafa farið á fullt og öll litlu smáatriðin tekið óvænt mikinn tíma.

„Allir þessir litlu hlutir sem skipta svo miklu máli eins og hver tekur bílinn, hver sér um hringana, börnin, nesti fyrir myndatöku, límbönd fyrir kjólinn og óteljandi aðrir hlutir. Þarna fór ég fyrst að finna fiðringinn í maganum um að þetta væri í alvöru að fara að gerast. 

Af þeim sautján árum sem við höfum verið saman höfum við alvarlega rætt brúðkaup í átta ár eða síðan bróðir minn og konan hans giftu sig.

 Við erum því alveg búin að taka okkur tíma í þetta.“

Mikilvægt að velja rétta fólkið og takmarka allt stress

Nóttina fyrir brúðkaupið ákváðu verðandi hjón að dvelja í sama rúmi. Eygló segir það hafa minnkað allt stress til muna.

„Bara það að vera heima hjá mér með drengjunum okkar var notalegt. Sverrir fór svo með strákana heim til vinahjóna okkar þar sem þeir gerðu sig klára fyrir daginn allir saman,“ segir Eygló en saman eiga þau Sverrir fjóra syni.

„Það er ómetanlegt að eiga góða vini og ég mæli mikið með að velja sér góðan stað til að græja sig á þennan morgun. Sjálf fékk ég mömmu, tengdó, mágkonu og nokkrar vinkonur þar sem við gerðum okkur fínar allar saman. Það er svo mikilvægt að velja rétta fólkið í kringum sig til að takmarka allt stress.

Brúðkaupsgestir flykktust að fyrir framan Hótel Geysi þar sem brúðhjónin lentu með þyrlu sinni fyrir framan hótelið. Íris Dögg Einarsdóttir

Þrátt fyrir að hafa verið þarna margar konur samankomnar var andrúmsloftið mjög afslappað og það skiptir að mínu mati gríðarlegu máli. 

Mamma var búin að vera í margar vikur að undirbúa þetta allt saman og mætti með morgunverðarhlaðborð bæði til mín og strákahópsins sem var með Sverri. 

Það kom svo engin önnur til greina en Elín Gestsdóttir, ein af mínum bestu vinkonum, til að græja hárið og gerði það nákvæmlega eins og ég hafði séð það fyrir mér.

Drottningin hún Maríanna Pálsdóttir snyrtifræðingur á Snyrtistofu Reykjarvíkur sá um að farða mig. Hún er að mínu mati einn mesti fagmaður sem finnst í þessu fagi. Nærvera hennar er eins og að liggja á skýi og hún sá til þess að ég væri ljómandi náttúrulega förðuð.

Hefði ekki getað fengið betri manneskju í verkið

Íris Dögg Einarsdóttir ljósmyndari tók myndir allan daginn, í undirbúningi hjá okkur báðum þangað til partýið byrjaði um kvöldið. Hún er gull í gegn og svo þægilegt að hafa hana í kringum sig. Hún úthugsar öll smáatriði og í öllum hamaganginum sem þessum degi fylgir er ekkert smá mikilvægt að velja ljósmyndara sem maður treystir. Ég hefði ekki getað fengið betri manneskju í verkið. Aníta Björk, frænka mín tók líka myndir á filmu en hún hefur verið að vinna við áhugaljósmyndun í Kaupmannahöfn. Það er svo dýrmætt að fá myndir frá henni.

DH Kreatív sáu um myndbandsupptöku allan daginn. Þeir mættu eldsnemma og fóru heim á miðnætti. Þeir eru svo miklir fagmenn að ég varð aldrei vör við þá.“

Mælir með tvískiptri myndatöku

Eftir kirkjuna keyrðu nýgiftu hjónin ásamt drengjunum í Hellisskóg sem staðsettur er rétt við Selfoss þar sem fjölskyldumyndatakan fór fram.

„Við eigum svo prúða drengi að það gekk upp eins og í sögu. Því næst beið okkar þyrla frá Norðuflugi á flugvellinum og fórum við bara tvö í hana ásamt ljósmyndara og kvikmyndatökumanni. Við flugum í Landmannalaugar og lentum bæði í Jökulgili og á Hrafntinnuskeri.

Ég mæli með tvískiptri myndatöku, byrja á fjölskyldu og fara svo tvö ein. Strákarnir voru þó ekki par sáttir að fá ekki að koma með í þyrluna en það mun bíða betri tíma. Við flugum síðan yfir og lentum á planinu fyrir framan Hótel Geysi þar sem gestirnir stóðu fyrir utan og tóku á móti okkur.

Brúðhjónin ganga úr þyrlunni inn í hótelið við mikinn fögnuð gesta. Íris Dögg Einarsdóttir

Við tók mesta draumaveisla sem við hefðum getað óskað okkur. Veislustjórarnir þeir Atli vinur Sverris og Óttar bróðir minn sáu til þess að allt fór eins og í sögu. Þeir voru með allt upp á tíu. Við fengum ræður sem búið var að leggja svo mikinn metnað í að maður trúði varla sínum eigin eyrum. Ég verð bara meyr að hugsa til þess hvað við eigum gott fólk í kringum okkur.

Vita hvernig á að halda veislu með glæsibrag

Að halda brúðkaupið okkar á Hótel Geysi var besta ákvörðun sem við hefðum getað tekið. Hóteleigendurnir lokuðu öllu svo við áttum staðinn algjörlega útaf fyrir okkur. Starfsfólkið þarna er með allt á hreinu enda eru þau búin að lifa og hrærast í þessu í ótal ár og vita vel hvernig á að halda veislu með glæsibrag.

Við getum ekki þakkað fjölskyldunni á Geysi nóg því þau gerðu þennan dag ógleymanlegan. Það var boðið uppá canapé með fordrykk, í forrétt var fyrst carpaccio sem kom okkur reyndar skemmtilega á óvart, næsti forréttur var besta humarsúpa sem allir í veislunni hafa bragðað. Í aðalrétt voru lambarifjur sem bráðnuðu í munni. Í eftirrétt voru blandaðir eftirréttaplattar sem slóu í gegn.

Bjarki yfirkokkur sá um matseldina en hann hefur matreitt á Geysi í þrjátíu ár og mikill heiður að fá hann til að sjá um matinn fyrir okkur þennan dag.

Hjónin nýgift og alsæl á brúðkaupsdaginn. Íris Dögg Einarsdóttir

Eftir formlegt borðhald var partý-kariókí með Dj Dóru Júlíu og Þórunni Antoníu, þar trylltist allt og mun fleiri en ég þorði að vona vildu taka þátt í kariókíinu.

Við Sverrir slepptum fyrsta dansinum en tókum þess í stað fyrsta lagið saman. Það fannst okkur mjög skemmtileg tilbreyting. Svo var partý fram á nótt þangað til gestir fóru upp á herbergin sín en allir fengu gistingu þar sem við vildum alvöru partý og enginn þyrfti að drífa sig heim.“

Tíu pör saman í tvær nætur

Eygló segir það hafa verið yndislegt að vakna um morguninn, fara í morgunmat og hitta alla aftur. Þá náðum við að kveðja alla gestina okkar almennilega áður en þeir sneru aftur heim.

„Við tókum ákvörðun strax í undirbúningi að vera tvær nætur til að lengja helgina og njóta meira. Mamma fór með strákana með heim og passaði fyrir okkur þannig við gætum verið í algjöru dekri.

 Okkur fannst tilvalið að fá góðan vinahóp okkar með og vorum því tíu pör saman sem vorum tvær nætur. 

Það var virkilega góð ákvörðun þar sem við nutum dagsins, kíktum í gróðurhús Jörfa á Flúðum og fórum svo á Laugarvatn í Fontana.

Stressleysið skrifast á skipulagið

Um kvöldið borðuðum við svo auðvitað öll aftur á Geysi geggjaðan mat. Það var ekkert sem gat klikkað.“

Spurð hvort eitthvað hafi komið sér á óvart nefnir Eygló helst hvað hún hafi verið afslöppuð í gegnum allt ferlið.

„Ég var mun minna stressuð en ég átti von á. Það skrifast líklegast á skipulagið en ég var mjög vel undirbúin samhliða því að vera umvafin yndislegu fólki sem var reiðubúið að veita alla þá aðstoð sem til þurfti. 

Þessi brúðkaupshelgi okkar fór langt fram úr okkar björtustu vonum. Mig langar bara að þakka öllum af alhug sem tóku þátt í deginum með okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×