Sport

NFL valdi Aaron Rodgers og New York Jets í „Hard Knocks“ í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eins og það hafi ekki verið næg pressa fyrir þá munu Aaron Rodgers og New York Jets liðið undirbúa sig fyrir tímabilið fyrir framan myndavélarnar.
Eins og það hafi ekki verið næg pressa fyrir þá munu Aaron Rodgers og New York Jets liðið undirbúa sig fyrir tímabilið fyrir framan myndavélarnar. Getty/Rich Schultz

NFL-deildin hefur ákveðið hvaða lið fær á sig sviðsljósið á undirbúningstímabilinu en það verður liðið sem var að semja við einn besta leikstjórnanda síðustu áratuga í deildinni.

Heimildarmenn Adam Schefter hjá ESPN, staðfestu við hann að NFL og NFL Films hafi valið Aaron Rodgers og New York Jets í „Hard Knocks“ í ár.

Í „Hard Knocks“ þáttunum verður fylgst með öllu undirbúningstímabilinu og myndavélarnar eru nánast alls staðar, á æfingasvæðinu, í matsalnum, í lyftingasalnum, á liðsfundum, í klefanum og svo er einnig fylgst með leikmönnum utan vinnunnar.

Undirbúningstímabil NFL deildarinnar er að hefjast og leikmenn New York Jets eiga að mæta í vinnuna á miðvikudaginn kemur.

Það koma ekki öll lið til greina í „Hard Knocks“ þáttinn því þar mega ekki vera lið með þjálfara á fyrsta ári, lið sem hefur verið í úrslitakeppni undanfarin tvö ár eða lið sem hafa verið í þættinum á síðustu tíu árum.

Það gerði það að verkum að þau sem komu til greina að þessu sinni voru Jets, Chicago Bears, New Orleans Saints og Washington Commanders

Robert Saleh, þjálfari New York Jets, hafði lýst því yfir að hann vildi ekki vera með myndavélar „Hard Knocks“ á sínu liði. Honum varð ekki að ósk sinni.

Áhuginn er gríðarlegur á Jets í ár þökk sé komu hins magnaða Aaron Rodgers en hann fær það risastóra verkefni að reyna að ná árangri með liðið.

„Hard Knocks“ þttirnir verða sýndir á Stöð 2 Sport í haust eins og undanfarin ár.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×