Valgeir hóf leik á varamannabekk Häcken í dag, en kom inn á þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Þá höfðu heimamenn í Häcken 1-0 forystu og því átt enn nóg eftir að gerast.
Mikkel Rygaard tvöfaldaði forystu Häcken þegar um stundarfjórðungur lifði leiks áður en gestirnir jöfnuðu metin með tveimur mörkum á seinustu tíu mínútum venjulegs leiktíma.
Varamennirnir Amor Layouni og Ola Kamara, sem báðir höfðu komið inn af varamannabekknum á 62. mínútu, komu heimamönnum þó til bjargar, því Layouni skoraði tvö mörk í uppbótartímanum eftir stoðsendingu frá Kamara í bæði skiptin.
Niðurstaðan varð því 4-2 sigur Häcken sem nú trónir á toppi sænsku deildarinnar með 35 stig eftir 16 leiki.