Erlent

Varað við nýjum hita­metum á Ítalíu, Grikk­landi, Spáni og Marokkó

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ferðamenn í Róm.
Ferðamenn í Róm. AP/Gregorio Borgia

Íbúar á Ítalíu, Grikklandi, Spáni og Marokkó hafa verið varaðir við því að ný hitamet gætu fallið á morgun, þegar hiti gæti farið yfir 49 stig. Hitabylgjan Karon fylgir nú í kjölfar Kerberusar, sem olli gríðarlegum hita á svæðinu í síðustu viku.

Alþjóðaveðurfræðistofnunin segir fyrstu daga júlí hafa verið þá heitustu í sögunni en Geimvísindastofnun Evrópu gaf það út á dögunum að júní hefði jafnframt verið sá heitasti. Þá birtist nýlega grein í Nature Medicine þar sem greint var frá því að í Evrópu hefðu 60 þúsund manns látist vegna hita síðasta sumar.

Maður reynir að kæla sig í Aþenu.AP/Yorgos Karahalis

Gert er ráð fyrir allt að 47 stiga hita í Sardiníu og 46 eða 45 stigum í Puglia og á Sikiley. Þá gæti hitinn í Róm náð 43 eða 42 stigum á morgun. Sextán borgir eru á viðvörunarstigi vegna hita, sem þýðir að hann gæti mögulega ógnað heilsu fólks.

Hitinn gæti náð 20 stigum á næturna og gert fólki erfitt fyrir með svefn.

Fjögur þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín á La Palma í kjölfar gróðurelda og viðvaranir hafa verið gefnar út vegna Gran Canaria og Tenerife. Á Grikklandi er Akrópólis enn lokuð yfir daginn til að vernda ferðamenn en spáð er hita yfir 40 stigum næstu sex daga frá og með fimmtudeginum.

Börn að leik í gosbrunni í Los Angeles.AP/Richard Vogel

Í Bandaríkjunum búa milljónir manna við veðurviðvaranir. Í Las Vegas er því spáð að hitinn gæti farið yfir 46 stig þrjá daga í röð, sem hefur aðeins gerst einu sinni áður. Þá hefur hitinn verið um og yfir 43 stig í Phoenix í tvær vikur.

Hitaviðvaranir eru einnig í gildi í Japan, þar sem hitinn hefur víða farið yfir 40 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×