Lífið

Peysa Díönu prinsessu á upp­­­boði

Máni Snær Þorláksson skrifar
Díana prinsessa klæddist peysunni sem um ræðir snemma á níunda áratugi síðustu aldar.
Díana prinsessa klæddist peysunni sem um ræðir snemma á níunda áratugi síðustu aldar. Getty/Bettmann

Peysa sem Díana prinsessa klæddist í upphafi níunda áratugar síðustu aldar er nú til sölu á uppboði. Um er að ræða rauða peysu með mynstri af hvítum kindum. Ein kindin er þó svört og er talið að Díana hafi þess vegna verið hrifin af peysunni.

Díana prinsessa klæddist peysunni á póló leik í júní árið 1981, skömmu eftir að hún trúlofaðist Karli konungi, sem þá var krónprins.

Peysan var hönnuð af þeim Sally Muir og Joanna Osborne sem starfræktu lítið prjónafyrirtæki, Warm & Wonderful. Nokkrum vikum eftir að Muir og Osborne sendu peysuna frá sér barst þeim bréf frá Buckingham höll þar sem fram kom að peysan hafi skemmst. Þá var spurt hvort hægt væri að laga peysuna eða gera nýja.

Peysan sem um ræðir er nú til sýnis í Sotheby's uppboðshúsinu í London.AP/Frank Augstein

Ákveðið var að prjóna nýja peysu og senda hana til prinsessunnar sem sást klæðast nýju peysunni árið 1983. Upprunalega peysan fór í geymslu á sínum tíma og fann Osborne hana óvænt þar í kassa fyrr á þessu ári.

Nú selur fyrirtækið Warm & Wonderful eftirlíkingar af upprunalegu peysunni og fleiri hluti sem vísa í peysuna. Eftirlíkingin af peysunni kostar 190 pund, sem er um 32 þúsund í íslenskum krónum. Það er  talsvert ódýrara en það sem gert er ráð fyrir að upprunalega peysan komi til með að kosta á uppboðinu. 

Samkvæmt AP er talið að peysan verði seld fyrir meira en fimmtíu þúsund dollara, sem samsvarar um 6,5 milljónum í íslenskum krónum, á uppboðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×