Viðskipti innlent

Festa kaup á 45 prósenta hlut í Öryggis­mið­stöðinni

Eiður Þór Árnason skrifar
Trausti Jónsson og Benedikt Ólafsson, stofnendur VEX.
Trausti Jónsson og Benedikt Ólafsson, stofnendur VEX. Aðsend

Framtakssjóðurinn VEX I hefur náð samkomulagi um kaup á um 45% hlutafjár í Öryggismiðstöðinni. VEX I er tíu milljarða framtakssjóður í stýringu VEX ehf. og fjárfestir í óskráðum fyrirtækjum. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu en seljendur eru félagið Hlér ehf., sem er í meirihlutaeigu Guðmundar Ásgeirssonar, Nóra Capital ehf., í eigu Róberts Róbertssonar, Daði Þór Veigarsson og Seldalur ehf., sem er í eigu nokkurra starfsmanna Öryggismiðstöðvarinnar. Þar að auki selur Laugarfell ehf., félag í eigu Ragnars Þórs Jónssonar, forstjóra og Auðar Lilju Davíðsdóttur, framkvæmdastjóra sölu og ráðgjafar að hluta og á áfram hlutafé í Öryggismiðstöðinni.

Hluthafar Öryggismiðstöðvarinnar eftir viðskiptin verða, ásamt VEX I, Laugarfell ehf., nokkrir lykilstarfsmenn félagsins og Feier ehf., félag í eigu Hjörleifs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg. Feier eykur lítillega við hlut sinn í viðskiptunum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Um 550 stöðugildi voru hjá Öryggismiðstöðinni á síðasta ári sem var stofnuð árið 1995. Að sögn stjórnenda nam velta félagsins rúmlega sjö milljörðum króna á síðasta ári og eru viðskiptavinir í öryggis- og velferðarþjónustu mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins.

Fimmta félagið sem VEX I fjárfestir í 

VEX I er tíu milljarða framtakssjóður í stýringu VEX ehf. „Sjóðurinn fjárfestir í óskráðum fyrirtækjum, sem eru að sækja nýtt hlutafé til vaxtar, auk stöndugra félaga þar sem tækifæri eru til umbóta og aukinnar virðissköpunar,“ segir í tilkynningu. VEX I hefur áður fjárfest í hugbúnaðar- og tæknifyrirtækjunum AGR Dynamics, Annata og Opnum kerfum, en sjóðurinn hefur einnig fjárfest í Icelandic Provisions sem framleiðir Skyr fyrir erlendan markað.

Benedikt Ólafsson, eigandi hjá framtakssjóðastýringunni VEX segir Öryggismiðstöðina hafa tekist að fjölga tekjustoðum á sviðum þar sem VEX sjái tækifæri til að sækja enn frekar fram. 

Ragnar Þór Jónsson, forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar segist hafa trú á að tilkoma VEX hjálpi félaginu að komast nær markmiðum sínum. 

„Fyrirtækið er í öflugum vexti og stöðugri þróun. Tækifærin eru fjölbreytt og við erum á spennandi vegferð með frábærum hópi starfsmanna þar sem gildi fyrirtækisins; forysta, umhyggja og traust leiða okkur áfram á því ferðalagi sem við erum á,“ segir hann í tilkynningu.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins stærstir í VEX I

VEX var stofnað af Trausta Jónssyni og Benedikt Ólafssyni en auk þeirra eiga tryggingafélagið VÍS og Bjarni Ármannsson, fjárfestir og forstjóri Iceland Seafood International, hlut í framtakssjóðastýringunni.

Sjóðurinn VEX I áformar að fjárfesta í fjórum til átta fyrirtækjum og að eignarhaldstími í hverju félagi verði á bilinu þrjú til sjö ár. Stærstu fjárfestarnir í sjóðnum eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 18 prósenta hlut hvor.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×