Erlent

Stjórnarandstaðan segir Ísrael stefna að stórslysi

Heimir Már Pétursson skrifar
Lögregla beitti kröftugum vatnsbyssum til að dreifa þúsundum mótmælenda gegn áformum ríkisstjórnarinnar.
Lögregla beitti kröftugum vatnsbyssum til að dreifa þúsundum mótmælenda gegn áformum ríkisstjórnarinnar. AP/Ohad Zwigenber

Ísraelska þingið, Knesset, samþykkti í dag fyrstu breytingarnar á dómskerfi landsins sem miða að því að auka vald þings og framkvæmdavalds og draga úr valdi Hæstaréttar í umdeildum málum.

Mikil mótmæli hafa verið í landinu vikum saman gegn áformum nýrrar hægristjórnar landsins. Hundruð manna hafa verið handtekin. Lögregla beitti, í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar í gær og í dag, öflugum vatnsbyssum til að dreifa þúsundum mótmælenda.

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra kom af sjúkrahúsi til að greiða atkvæði með hinu umdeilda frumvarpi.Hann myndar ríkisstjórn með nokkrum að mestu trúaröfgaflokkum landsins.AP/Maya Alleruzzo

Samkvæmt nýju lögunum getur Hæstiréttur landsins ekki lengur ógilt umdeildar ráðstafanir þingsins meðal annars á herteknu svæðunum í Palestínu. Yair Lapid leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Knesset segir þetta dapran dag í sögu Ísraels. Breytingarnar gætu meðal annars getað dregið úr vilja fólks til að gegna herskyldu í þjóðarvarðliði landsins. Rétt fyrir atkvæðagreiðsluna í Knesset reyndi hann að fá meirihlutann til að skipta um skoðun.

„Við stefnum hraðbyri að stórslysi. Ef þið greiðið atkvæði með þessu frumvarpi hraðið þið endalokum hersins, þið styrkið óvini Ísraels, þið skaðið öryggi Ísraelsríkis, sagði Lapid. En allt kom fyrir ekki stjórnarliðar fögnuðu niðurstöðunni sem er þó aðeins fyrsta skrefið í áætlunum þeirra um að draga úr áhrifum dómsvaldsins í Ísrael.


Tengdar fréttir

Greiða atkvæði í skugga mikilla mótmæla

Atkvæðagreiðsla um umdeilt frumvarp ríkisstjórnar Ísraels um dómstóla landsins er hafin. Mikil mótmæli hafa verið haldin vegna frumvarpsins en gagnrýnendur segja það ógna lýðræði Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×