„Dánarorsökin er óákvörðuð vegna ástands líkamsleifanna og vegna þess að engir aðrir þættir voru uppgötvaðir við rannsókn dánardómstjóra, sem er algengt í málum sem þessum. Þetta er lokaniðurstaðan,“ sagði Mara Rodriguez, upplýsingafulltrúi dánardómstjóra hjá San Bernardino-sýslu í Kaliforníu, í samtali við CNN.
Umfangsmikil leit af leikaranum hófst í janúar þegar hann skilaði sér ekki heim úr fjallgöngu í Suður-Kaliforníu. Jarðneskar leifar hans fundust nærri toppi fjallsins Mount Baldy í síðasta mánuði.
Sands var búsettur í Hollywood en hann er meðal annars þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndunum A Room with a View, The Killing Fields, Warlock, Ocean's Thirteen og The Girl with the Dragon Tattoo.