„Gleðigangan leggur af stað frá Hallgrímskirkju klukkan tvö og stormar þaðan áleiðis í Hljómskálagarðinn. Það er mjög mikill fjöldi atriða skráður til þátttöku og ef mér skjátlast ekki þá höfum við sjaldan eða aldrei séð fleiri atriði skráð. Þannig öll þau sem leggja leið sína í miðborgina mega eiga von á mikilli litadýrð, baráttugleði og samstöðu,“ sagði Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga.

Veðrið er með besta móti í höfuðborginni, léttskýjað og logn. Að göngu lokinni verður boðið upp á útitónleika í Hljómaskálagarði.
„Öll eru velkomin, þar munu stíga á svið fjölbreyttar hljómsveitir, til dæmis FLOTT og svo mun Una Torfa flytja Hinsegin daga lagið og fleira. Svo í kvöld er lokaballið okkar í Iðnó og svo eru fjölmörg önnur partí og böll í gangi, þannig það verður nóg um að vera fyrir þá sem vilja skemmta sér inn í kvöldið og nóttina.“
Sýnt verður frá Gleðigöngunni í Kvöldfréttum Stöðvar 2.