Íslenski boltinn

Leyni­peppari á bak við tjöldin kveikti í Víkings­stelpunum fyrir bikar­úr­slitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingsstelpurnar fagna hér bikarmeistaratitlinum sem var sá fyrsti hjá kvennaliði félagsins.
Víkingsstelpurnar fagna hér bikarmeistaratitlinum sem var sá fyrsti hjá kvennaliði félagsins. Vísir/Hulda Margrét

Nýkrýndu bikarmeistararnir Nadía Atladóttir og Emma Steinsen Jónsdóttir voru gestir Helenu Ólafsdóttur í upphitun fyrir sextándu umferð Bestu deildar kvenna sem hefst í kvöld.

Upphitun er að venju aðgengileg hér á Vísi en þar er farið yfir leiki helgarinnar og spáð í spilin.

Lengjudeildarlið Víkings kom flestum mjög mikið á óvart með því að tryggja sér bikarmeistaratitilinn með sannfærandi 3-1 sigri á toppliði Bestu deildar kvenna í Breiðabliki.

Nadía er fyrirliði Víkingsliðsins og skoraði tvö mörk í úrslitaleiknum þar af annað þeirra eftir stoðsendingu frá hægri bakverðinum Emmu Steinsen.

Helena forvitnaðist um undirbúning Víkingsliðsins fyrir bikarúrslitaleikinn en þar heyrðu Víkingsstelpurnar úr flestum áttum, að þær ætti enga möguleika í bikarúrslitaleiknum.

Var tryllt vika

„Við vorum búnar að undirbúa okkur vel fyrir þennan leik. Við vorum alltaf að peppa okkur meira og meira með hverjum deginum. Því nær sem leið leiknum því meira gíraðar vorum við í þetta. Þetta var bara tryllt vika,“ sagði Nadía Atladóttir.

Í spjallinu kom fram að það var leynipeppari á bak við tjöldin. Nadía hafði sjálf fengið hann til að hvetja sig áfram fyrir undanúrslitaleikinn á móti FH en nú talaði hann við allt liðið.

Emma pressaði á Nadíu að segja söguna af pepparanum.

„Við fengum smá peppfund líka, ekki gleyma honum,“ sagði Emma Steinsen Jónsdóttir en sá sem kveikti í Víkingsliðinu heitir Bjartur. „Þetta er einn mesti snillingur sem ég hef kynnst. Hann gíraður okkur svo sannarlega í gang fyrir leikinn,“ sagði Emma.

Geggjaður gæi

„Þetta er geggjaður gæi. Ég fór til hans fyrir FH-leikinn. Undanúrslitin. Mér fannst hann bara geðveikur. Ég kom með alls konar taktík inn í klefa fyrir þann leik. Allir voru bara: Hvað er Nadía að gera?,“ sagði Nadía.

„Ég hef aldrei séð Nadíu svona. Nadía lætur aldrei svona. Hún var bara ógeðslega gíruð og ég hugsaði: Mig langar í það sem hún fékk,“ sagði Emma.

„Svo sagði ég þeim eftir leikinn hvað ég hafði gert. Þær voru smá að naggast í mér: Ætlar þú ekki að heyra í Bjarti fyrir úrslitaleikinn? Ég ákvað að heyra í honum í byrjun vikunnar og hann var mjög gíraður í þetta. Hann hjálpaði okkur alveg mjög mikið,“ sagði Nadía.

Gargandi á hverja aðra

„Við hittumst þarna í klukkutíma og við vorum gargandi á hverja aðra að við værum með þetta og værum að fara að vinna. Svo endaði þetta meira að segja á því að við vorum allar hoppandi, dansandi og syngjandi bikarmeistarar. Þá hugsaði maður bara að þetta verður svona á eftir,“ sagði Nadía.

„Við vorum bara að manifesta,“ sagði Emma.

Bjartur Guðmundsson er lærður leikari sem starfar nær eingöngu sem fyrirlesari og frammistöðuþjálfari eða markþjálfi.

Helena fékk stelpurnar einnig til að spá fyrir um sextándu umferðina en fjórir leikir fara fram í kvöld og einn á morgun.

  • Leikir umferðarinnar eru:
  • Þriðjudagurinn 15. ágúst
  • 18.00 ÍBV-Keflavík (Stöð 2 Sport 5)
  • 19.15 Selfoss-FH (Stöð 2 Besta Deildin 1)
  • 19.15 Þór/KA-Valur (Stöð 2 Sport)
  • 19.15 Þróttur-Tindastóll (Stöð 2 Besta Deildin 2)
  • Miðvikudagurinn 16. ágúst
  • 18.00 Stjarnan-Breiðablik (Stöð 2 Sport)
  • 20.00 Bestu mörkin (Stöð 2 Sport)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×